Tímarit Máls og menningar - 01.11.1971, Side 76
Tímarit Máls og menningar
Það er þannig vafasamt að einstaklingur geti lengur með nokkrum rétti unnið
til Nóbelsverðlauna í náttúruvísindum.
Nú er það einmitt alsiða, að hópur manna frá ýmsum vísindagreinum,
starfar saman að lausn ákveðins verkefnis, og vel getur verið um að ræða
samstarf rannsóknarstofnana í tveimur, þremur eða fleiri löndum.
En ef við segjum, eins og hér hefur verið gert, að vísindarannsókn sé
könnun þess óþekkta, er þá til ákveðin aðferð til að gera uppgötvanir? Því
verður að svara neitandi.
Til þess að finna eitthvað nýtt, verða menn að rekast á það, sjá það, fá
vitneskju um það af reynslu sinni eða láta sér detta eitthvað í hug, ef svo
mætti segja.
Auðvitað er sannleikurinn jafngóður hver sem á hann rekst, en hið nýja
sem menn telja sig hafa fundið verður ætíð að standast próf vísindalegrar
tilraunar.
Kennsla í vísindum
Kennsla í náttúrufræðum hefst í gagnfræðaskóla, en þó varla í alvöru fyrr
en í stærðfræði- og náttúrufræðideildum menntaskólanna. í menntaskólum
eiga menn að fá undirstöðuþekkingu í flestum greinum náttúruvísindanna,
þ. e. a. s. stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, líffræði, stjörnufræði, jarðfræði.
Ég hygg, að þessar greinar séu of aðskildar í námi, eins og hver í sínu hólfi,
ef svo mætti segja. Þessar greinar hafa að talsverðu leyti sameiginlega undir-
stöðu og þurfa að taka mið hver af annarri. Mætti í fyrstu kenna þær sem
eina grein — sem almenn vísindi.
Þessi almennu vísindi þyrfti að færa neðar í skólana hér, byrja jafnvel í
efstu bekkjum barnaskóla og auka til muna slíka kennslu í gagnfræðaskól-
um. Vel má vera, að einhverjar skóla- og fræðslunefndir eða ráð séu einmitt
að athuga það.
Eins og kunnugt er, eru það kennararnir sem ráða kennslunni að mestu.
Þeir búa til bækurnar og segja fyrir um verkefni, sem nemendurnir fást við,
og er kannski eðlilegt, að þeir, sem teljast hafa kunnáttu og reynslu ráði
ferðinni — þeir eldri fræði þá yngri.
Hér áður var siður að læra bækur utanað — annað var ekki kallað að
kunna. í barnaskólum þótti sú aðferð sjálfsögð, e. t. v. hafa duglegir nemend-
ur einmitt fundið hana upp sjálfir.
154