Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Blaðsíða 10
Tímarit Máls og menningar
menn aflýstu að vísu verkföllunum, en komu ekki til vinnu allan janúarmán-
uð. Þá var tekin upp ný aðferð, svokallaður skæruhernaður, lögð var niður
vinna á einstökum vinnustöðum þar til atvinnurekendur neyddust til að
semja. Þannig tókst að stórhækka kaup stórra hópa verkamanna, svo að ekki
var stætt á því að halda kaupþvingunarlögunum til streitu. Þau urðu ónýtt
pappírsgagn og Alþingi felldi þau úr gildi. 011 þessi barátta var undir for-
ustu Sósíalistaflokksins og meginástæðan fyrir hinum mikla kosningasigri
hans í tvennum kosningum um sumarið. Við þetta bættist, að um allan heim
voru róttækir sósíalistar og kommúnistar í broddi fylkingar í baráttu þjóð-
anna gegn einum mesta ógnvaldi mannkynsins, fasismanum, og nutu mikill-
ar aðdáunar allra andfasista.
Síðustu spurningunni, hvort beint framhald hefði getað orðið á þessu við
breyttar aðstæður, er ekki hægt að svara. Það er alveg tilgangslaust, að vera
með bollaleggingar um það, hvað hefði gerzt í þessu tilfellinu eða hinu, ef
rás sögunnar hefði orðið einhvern veginn öðruvísi. Hins vegar er rétt að
benda á, að þessi mikla fylgisaukning var eins og flóðalda, og það er mjög
sjaldgæft að slíkar öldur hnigi ekki aftur. Hitt er miklu athyglisverðara, að
Sósíalistaflokkurinn hélt fylgi sínu óskertu í næstu kosningum í lok nýsköp-
unartímabilsins.
Var stofnun Sósíálistaflokksins - samruninn við Héðin samkvœmt línu
að utan? Var það heilladrjúgt fyrir Kommúnistaflokkinn?
Stofnun Sósíalistaflokksins var svo sannarlega ekki samkvæmt línu að ut-
an, heldur má segja, að þetta hafi verið brautryðjendaverk, sem vakti mikla
athygli meðal kommúnista og sósíalista í öðrum löndum. Hún átti víst ekkert
fordæmi með einni undantekningu, sem ég man, en það var sameiningar-
flokkur, sem varð til í borgarastríðinu á Spáni, í Katalóníu. Þetta var að
mínum dómi mjög heilladrjúgt fyrir íslenzka sósíalista. Þarna sameinuðust
íslenzkir sósíalistar, sem áttu flest sameiginlegt, í einum flokki. Héðinn
Valdemarsson yfirgaf að vísu flokkinn vegna ágreinings um utanríkismál,
ásamt litlum hópi, en margir þeirra komu aftur. Úr Alþýðuflokknum komu
margir ágætismenn og vil ég þar fyrstan nefna slíkan öndvegismann sem
Sigfús Sigurhjartarson. Samstarfið milli þeirra, sem komu úr Kommúnista-
flokknum og Alþýðuflokknum reyndist með ágætum, og þegar skiptar skoð-
anir voru í flokknum síðar um einstök mál, þá var síður en svo, að afstaða
manna færi eftir því, úr hvorum flokknum þeir komu, og á það var aldrei
minnzt.
216