Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Blaðsíða 7
Tvö viðtöl urn íslenzka stjórnmálasögu
En það er líka hægt að leggja aðra merkingu í orðið söguleg nauðsyn,
þá að tiltekin þróun og tilteknir atburðir hafi verið óhjákvæmilegir og ekki
unnt að afstýra þeim. Það er hægt að halda því fram, að í Sovétríkjunum
hafi verið framin óhæfuverk, sem ekki verði réttlætt af neinni þörf, sem ekki
varð undan vikizt í miskunnarlausu stéttastríði. En slík voðaverk eru fylgi-
fiskar allra styrjalda og allra stéttastríða. Engin styrjöld og engin stétta-
stríð hafa verið háð í heiminum, þar sem ekki hafa verið framin óhæfuverk
og grimmdarverk. Bylting, sem hefur í för með sér róttækustu riftingu fornr-
ar eignahagsskipanar í allri veraldarsögunni, er ekki eins og gestaboð, svo
að notuð séu orð Maó Tse-tungs. Ef ofviðri eða fellibyljir skella á, þegar
allar íleytur eru á sjó, þá verður stórslysum naumast afstýrt. En gegn slíkri
nauðsyn berjast menn af öllum kröftum, og á sama hátt reyna allir góðir
byltingarmenn að koma í veg fyrir slys og óhappaverk í eigin herbúðum.
Illvirki eru auðvitað skelfileg fyrir þá, sem fyrir þeim verða, en þau eru
jafnvel enn meiri harmleikur fyrir þann málstað, sem misnotaður er til að
réttlæta þau. Þau eru ævinlega vatn á myllu andstæðinganna og til tjóns fyrir
þann málstað, sem hefur fremjendur þeirra í þjónustu sinni. Hryðjuverkin
í Víetnam eru t. d. sannkallaður bandarískur harmleikur.
Það er víst, að rússneska byltingin hefur á öllum ferli sínum kostað óskap-
legar og ómælanlegar fórnir, bæði nauðsynlegar og ónauðsynlegar í þeirri
merkingu, sem ég nefndi fyrst. Andstæðingar hennar hafa auðvitað ekkert
til sparað að draga upp sem hrikalegasta mynd af þessu öllu og kunnað vel
að hagnýta sér barnaskap saklausra og velviljaðra manna, sem ímynda sér,
að saga svona feiknlegra heimssögulegra átaka geti verið eins og ljúfur og
sætur eldhúsreyfari.
En það er eftirtektarvert, að þeir sem mest hneykslast á misferli og vald-
níðslu í Sovétríkjunum, minnast næstum aldrei á voðaverk, sem framin eru
í auðvaldsheiminum. Það er eins og þeim finnist múgmorðin í Indónesíu og
víðsvegar í nýlendunum, kjarnorkuglæpirnir í Hírósíma og Nagasakí, bakt-
eríustríðið í Kóreu, hótanirnar um að eyða stórborgir Sovétríkjanna með
vetnissprengjum, stríðsglæpirnir í Indókína og yfirleitt hvers konar glæpir,
sem framdir eru í auðvaldslöndum og af kapítalískum valdhöfum næstum
sjálfsagðir hlutir og ekki við öðru að búast. Þetta væri vissulega mikil við-
urkenning á siðferðilegum yfirburðum sósíalismans, ef mælt væri af heil-
indum. En þessir menn mæla áreiðanlega ekki af heilindum. Hér er hvorki
um að ræða áhuga fyrir sögulegum staðreyndum né heldur umhyggju fyrir
213