Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Blaðsíða 5
Tvö viðtöl um íslenzka stjórnmálasögu
bandsins á Norðurlandi og Vestfjörðum og fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í
Vestmannaeyjum studdu þessa stefnu okkar. Sumarið 1930 birtu þau ávarp
í Verklýðsblaðinu, þar sem þau lögðu til, að á verkalýðsráðstefnu þá um
haustið yrði ákveðið að stofna verkalýðssamband óháð pólitískum flokkum.
Ollum tillögum okkar um skipulagsbreytingar og pólitískt sjálfstæði verka-
lýðsfélaganna var hafnað. Þegar Kommúnistaflokkurinn var stofnaður, ósk-
aði hann eftir að verða deild í Alþýðusambandinu. Öllu þessu var hafnað,
en í stað þess vorum við sviptir kjörgengi til Alþýðusambandsþinga og
fulltrúaráða og til allra trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Þeim félögum, sem
kusu eigi að síður kommúnista á sambandsþing og fólu þeim forustu, var
meinuð vera í sambandinu og önnur félög stofnuð í staðinn. Þetta leiddi til
þess, að verkalýðshreyfingin var margklofin á fjórða áratugnum. Svo að
það var um enga valkosti að ræða fyrir okkur. Við fengum ekki að starfa
innan Alþýðuflokksins og berjast þar fyrir okkar skoðunum. Eigi að síður
héldum við áfram að vinna í Alþýðuflokknum þ. e. í verkalýðsfélögunum,
að svo miklu leyti sem við áttum þess kost og meðan við vorum ekki reknir
úr þeim, og við lágum þar ekki á liði okkar. Þessu er nauðsynlegt að menn
geri sér grein fyrir til þess að geta skilið þá þróun, sem átti sér stað á þess-
um árum.
Var kreppan afgerandi varðandi stofnun Kommúnistaflokks Islands?
Efnahagskreppan flýtti fyrir því, að Kommúnistaflokkurinn var stofnaður.
Það vantaði forustuafl til þess að standa í fararbroddi í þeirri hörðu stétta-
baráttu, sem framundan var, og reynslan hafði sýnt að til þess dugði Al-
þýðuflokkurinn ekki og átti eftir að sýna það betur. Hjá alþýðu manna
voru slík neyðarkjör, að unga kynslóðin getur vart gert sér slíkt í hugarlund.
Þetta fólk þurfti á annarri forustu að halda, en það átti völ á í Alþýðu-
flokknum. En ég held samt að það væri rangt að segja, að efnahagskreppan
ein út af fyrir sig hafi ráðið úrslitum. Auðvaldsskipulagið hafði verið í al-
mennri kreppu allt frá striðslokum, og það var þessi almenna kreppa, sem
var aflvaki hinnar róttæku hreyfingar.
Hvað er það, sem gerir ungan mann sem yður að kommúnista á þessum
árum, en ekki að krata, íhaldsmanni eða jafnvel að Framsóknarmanni í
anda Hriflu-Jónasar?
Það var ekki vandi að sjá meinsemdir auðvaldsskipulagsins á þessum
árum, örbirgð þess, stétta og þjóðakúgun, kreppur þess og atvinnuleysi,
211