Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Blaðsíða 26
Tímarit Máls og menningar
Eitthvað fleira stóð þarna, sem ég hef gleymt. Hvað flýðum við? Her-
numin og drukkin og rík og þjóðernissinnuð og við sungum hástöfum á
ensku. Ég vil ekki hneyksla hrekklausar sálir yðar. Öll mjög drukkin í lok
Marshallánsins. „Hér getur ekkert komið fyrir. Ó, guð, ég á svo gott. Ég á
allt af öllu. Ég er svo heppin með manninn minn, svo lukkuleg með börnin.“
Þannig sungum við ekki, en við heyrðum þennan söng allt í kringum okkur
út um opna glugga bæjarins, sem var ekki enn þá orðinn að borg.
Ljósapera í lofti. Glúpandi bréfi hafði verið brugðið utan um hana í stað
hjálms. Öll mjög drukkin. Og sálin krumpuð.
Drekkið Kóka Kóla! Það skal vera tvítekið, vegna þess að mér sást yfir
að skrifa þau verndarorð á eftir „mjög drukkin“, samanber: ekk‘a reykja,
ekki reykja, þig langar ekkert í reyk, þegar þig dauðlangar í smoke og
sígarettu, og þú ert að venja þig af tóbaki, sem þú berst gegn allt þitt
líf. Skyndilega byrjaði Svanur að lesa sögu eftir sig. Þá lágu tveir andvana
á gólfinu í hrúgu úlpunnar, án þess að vita í þennan heim né annan. Við
hin dottuðum með þurr síberísk augu og kunnum varla að depla augnalok-
unum. En ég spurði: Er þetta nýtt fiff, Anna? (Ég breyti nafni stúlkunnar
í nafn móður minnar - eins og ég hafi verið á fylliríi enn á ný með móður
minni! - þannig að félagana gruni okkur ekki um margföldun, fyrr en við
segjum algerlega skilið við hópinn. Við sátum troðin upp í horn hjá glugg-
anum í berjapressu. (í þannig herbergjum er höfðalag dívansins alltaf
undir glugganum, svo að hægt sé að hleypa limburmönnunum út um hann
opinn á nóttinni, en golan streymir inn til að vekja mann í skólann, til
vinnunnar, eða til lífsins að morgni. Og lífið blasir við, sem puð eftir
peningum í flösku á laugardögum). Við svo gott sem sváfum og vorum með
hálfnáttúrulaust fálm, rammíslenzk, drukkin og róttæk.
Þá gerðist það, skyndilega og óvænt, eins og allt í mínu lífi. Við sátum
storknuð, nema á þeim stað, þar sem hjartað slær, þar sem löngunin býr
í okkur. Hún færði sig örlítið. Húsráðandinn sat á stólnum, líkt og hann
svæfi, með blöðin í höndunum og hugur hans ók burt „í gljáandi regnúða“
sögunnar, sem Svanur hafði nýlesið yfir okkur. En hann svaf ekki. Hann
lyfti höfði og skimaði í kringum sig, leit á okkur, eins og ljón á sofandi dýr
við ána Jórdan, reis gætilega á fætur í hálfrökkrinu og rak öðrum þeirra,
sem svaf með grútarlegt andlit á gólfinu, hnefahögg. Með ósofnum augum
sá ég blóðið vella úr vitunum. Ég fann réttlætið gera vart við sig í vöðvun-
um og streyma hring í kring um höfuðið, en Anna greip fast um mig,
skrúfaði sig að mér og reyndi að hreinsa innan á mér munninn með tung-
232