Tímarit Máls og menningar - 01.12.1973, Blaðsíða 60
Tímarit Máls og menningar
skilja þeirra háttalag. Ég fann til með þeim þegar hart var, og á vorin gat
ég oft lifað mig inn í söng þeirra og lífshamingju.
Oxnadalurinn var snjóþungur og það gat tekið langan tíma að brjótast
til næsta bæjar. En hann bjó yfir þeirri kyrrð sem öræfum einum er gefin,
kyrrð sem umlykur mann seiðmagni einverimnar, við nakin brjóst náttúr-
unnar. Kyrrð sem aðeins er rofin af veðrum. Allt í einu hættir kannski að
rigna, þokan lyftir sér hærra og hærra yfir fjöllin og sólin kemur ofan í
dalinn, heit og fagnandi, þá er loftið svo tært, að fjöllin eru rétt hjá maniii
og þó hefur sjóndeildarhringurinn víkkað. Á slíkum dögum átti hjartað svo
létt með að slá, vegna þess hve lungun drógu að sér heilnæmt loft og þá
reyndi ég æfinlega að yrkja um það hve dásamlegt væri að lifa, þrátt fyrir
fátækt cg skort.
Önnur kyrrð, sem eins og dottar undan veðrum, getur stundum verið
dimm og ógnandi. Grátittlingarnir hafa enga eirð í sínum beinum, heldur
stjákla til og frá og það er alltaf að koma að þeim einhver styggð og hrafn-
arnir koma þá svo óvanalega nálægt manni, fljúga síðan upp og eins og
stinga sér í veðuráttina og þetta gera þeir hvað eftir annað, þá liggur eitt-
hvað í loftinu sem leggst að manni og reynir að þrýsta sér inn í vitundina.
Ég man eftir mörgum slíkum fyrirboðum, og um veturnætur 1919 var einmitt
einn slíkur dagur. Rökkrið var að síga niður af himninum, fyrst fyllti það
allar lægðir og gilin í Hjallanum, síðan var eins og hka væri breitt yfir
hæðir og hóla og fjöllin komu alveg til dalsins og áin sem rann eftir dalnum
var allt í einu eins og hún rynni þétt við fæturna á manni, ég heyrði svo
greinilega hvernig hún gutlaði við grjótið, og flúðir og smáfossar voru
með gráthljóði þetta kvöld. Norðurhiminninn var orðinn kolsvartur það
sem til sá, glæta var enn í skýjum eftir dalbotninum og allra snöggvast rof-
aði í stjörnu yfir Vaskárdal, stjörnu sem brosti eins og mannsauga um leið
og hún hvarf. Kyrrðin var svo þung eins og himinninn væri kominn að því
að detta. Ég var að koma frá gegningum, hafði hýst kindurnar og hestinn
og var búinn að gefa seinni gjöfina. Svarthöfðótta forustuærin sem varíhópn-
um, vildi fara snemma heim að húsinu sínu þetta kvöld, svo ég var með fyrra
móti að. Ég tróð garðaló meðfram gisnum hurðum og fyrir neðan þær ef
hann skyldi snjóa, síðan hraðaði ég mér heim að bænum, enda var tíkin hún
Drífa orðin óróleg og rak upp smáýlfur. Allt í einu kom dálítil vindstroka
utan úr logninu og bar með sér nokkur snjókorn. Ég lyfti lokunni á bæjar-
hurðinni og þokaði mér innfyrir, og beið eftir hríðinni sem var á skrið-
unni milli Gils og Varmavatnshóla og ég vissi með sjálfum mér að nú
266