Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Blaðsíða 113
Skólaumbœtur og skðlagagnrýni
Þessi þróun er ósjaldan túlkuð sem sigurganga framfaranna. Menntun sé af
hinu góða; bæði hljóti allur almenningur aukna almenna menntun og sér-
menntun og auk þess gefist fleirum kostur á æðri menntun. íslenskir skóla-
menn, einnig hinir sósíalísku, eru meðal þeirra sem slegnir eru glýju framfar-
anna (sbr. 1. kafla).
Framfaraglýjuna fá menn í augun á meðan þeir skoða skólann einangraðan.
Sé þróun skóla og vinnu hins vegar litin í samhengi, gaumgæft hvaða hlutverki
menntun hefur haft í heildarþróun lífsskilyrða verkafólks, blasir við allt önnur
mynd. Því var lýst í 2. kafla hvernig vinnan afhæfist í rás auðskipulagsins. Vegna
gróðasjónarmiða riftir auðmagnið jafnan samhengi hugar og handa í vinnunni
og bútar ennfremur heild líkamlegrar vinnu niður í einhæfa verkþætti. Þannig
er iðnaðarmönnum af hefðbundinni gerð bolað út úr vinnunni, en þess í stað
vinnur skari ófaglærðra en oft sérþjálfaðra manna við vélarnar; örfáir mennta-
menn hafa yfirsýn yfir tækniheildina en sérmenntaðir „tæknar“ annast viðgerðir
og eftirlit. Það er ekki einungis svo að afhæfing vinnunnar gersneyði vinnuna
þeirri sköpun sem oftlega felst í handverki. Hún er jafnframt sterkasta tækið til
að ræna verkamanninn sjálfræði í vinnunni og taumhaldi á því hversu hart er
gengið að honum. A meðan hreyfingar handverksmannsins ráða hraða vinnu-
ferlisins að verulegu leyti notar auðmagnið — í gervi vélanna — afhæfða
verkamanninn sem hvert annað verkfæri. Vinnudagurinn verður að enn verra
helvíti en áður. Auk þess er afhæfingin eitt sterkasta vopn auðmagnsins í að
halda launum niðri þar sem samkeppni verkafólks verður í vaxandi mæli barátta
allra gegn öllum. Liður íþessari afhœfingu vinnunnar er að meistarakerfi iðnnáms
leysist upp en pess í stað kemur örstutt sémám fyrir allan fjöldann og takninám fyrir
fáa.
Um leið og vinnan afhæfist vaxa kröfur til verkafólks um hreyfanleika á
vinnumarkaði og aðlögunarhæfni að nýjum störfum. Jafnframt gerist það
samtímis að auðmagnið gerir æ staðlaðri kröfur til vinnuafls og það leggur
aukið sálrænt og líkamlegt álag á vinnuaflið. Þessir tveir þættir leiða til þess að
almenn skólaganga er aukin og innihaldi náms er breytt. Það er í ljósi þeirra sem
skoða ber vaxandi áherslu skólamanna ,,að miða við nemandann sjálfan“ og
„stuðla að þroska hans“. Félagsmótun fjölskyldunnar verður æ léttvægari og
götóttari og skólinn er sá aðili sem tekur á sig höfuðbyrðina við að búa vinnuaflið
undir að halda sér á floti á ce úfnari sjð kapítalísks vinnumarkaðar.
Hér hef ég rissað upp í fáum orðum þá megindrætti sem einkenna skóla-
þróun auðvaldsríkja, og þeir eiga ekki síður við um ísland en önnur ríki.
231
L