Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Page 92
Tímarit Máls og menningar
„Hversvegna eru lærðir menn ekki sósíalistar?" í Rétti 1931. Silja virðist lesa
söguna þannig að það sé gott og blessað að sósíalískir menntamenn tali, segi
frá draumum sínum um betra samfélag, en hverfi hins vegar á braut þar sem
kemur til framkvæmda. Menntamanninum sé nóg að skrifa bækur þar sem
Silju og öðrum „opinberast allur sannleikurinn um þjóð mína“ eins og hún
orðar viðhorf sitt til Sölku Vólku. Svona einfalt var málið ekki fyrir þeim
sem skrifaði Alþýðubókina og Sölku Vólku. Það er ástæðan fyrir því að
hann er svona kaldhæðinn á köflum um Arnald. Það er von mín að þótt
Silja virðist „afpróblematísera" Arnald og reyna að gera úr honum dýrling,
þá sé ekki þar með sögð sagan um hugmyndir hennar um stöðu sósíalískra
menntamanna.
Því miður festist sú meinloka í Silju að mér væri eitthvað illa við
sögupersónuna Arnald. Ætti nú að vera ljóst orðið að svo er ekki, — né
heidur er mér illa við aðrar persónur í skáldsögu þessari. Silja vitnar í orð
mín þar sem ég vek athygli á þeim atriðum sem sýna að skáldið hefur viljað
gefa kost á neikvæðri mynd af sósíalíska menntamanninum. Tilvitnunin er
hins vegar ekki það löng að fram komi svofelld orð mín: „Á hinn bóginn er
í sjálfu sér alveg hægt að rökstyðja að hann hafi hegðað sér rétt“ o. s. frv. Ef
Silja hefði gætt að þessum orðum hefði hún kannski ekki gert hina „hörðu
árás“ sína. Salka Valka er bók full af efasemdum, einkum varðandi sósíal-
ismann og hlutverk menntamannsins. Kjörorð sögunnar gætu einmitt verið
setningin „Breytileiki lífsins er sannleikurinn", sem Silja velur sér að
greinarheiti. Efunargirni skáldsins er ein helsta orsök þess hve Arnaldur er
siðferðislega tvíræður. Efahyggjan er rúmfrekari í Sölku Völku en í
Alþýðubókinni, enda má segja að í skáldsögunni séu hugmyndir úr ritgerðum
Halldórs endurmetnar á frjálslegan hátt eins og formið veitir svigrúm til.
I greinarlok þykir mér Silja heldur betur fara út af sporinu. Fyrst gerir
hún ómerkilegt orðalagsatriði varðandi kossa að umtalsefni. I sögunni segir
að vafamál sé hvort Salka kunni að kyssa, en bókmenntafræðingurinn
tekur fram að þar með sé ekki sagt að það sé ekki hægt að kyssa hana. Ekki
er víst að bókmenntafræðinni sé mikill ávinningur í þessari athugasemd. En
á bak við þetta kann að liggja hjá Silju sú aðdróttun að sjónarhorn mitt sé
of karlbundið. Um þetta atriði er því til að svara að ég er að ræða málið frá
sjónarmiði Arnalds, og þess vegna er orðalag mitt fullkomlega eðlilegt.
Ástæðan fyrir því að ég fjalla einkum um Arnald og hans sjónarmið er ekki
karlremba mín heldur að Arnaldur og höfundur sögunnar eru hliðstæðir
um margt, og þess vegna má nota Arnald til að skilja Alþýðubókina betur.
Eg er ekkert að reyna að hrinda Sölku úr hásæti höfuðpersónunnar, ef það
er það sem Silja vinkona hennar óttast. Eg vona bara að Silja lifi ekki í þeirri
trú að tilraunir hennar til að sanna að Salka hafi sent Arnald frá sér í stað
458