Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 59
Hugmyndafrœði vísindanna
var brautryðjandi í rannsóknum á vísindum Fornegypta og Babýlóníu-
manna:
Vísindamanni á okkar dögum virðist forn stjörnuspekiritgerð eintómt
bull. En við verðum að hafa hugfast að okkur ber að vega og meta slíkar
kenningar á vogarskálum þeirra tíma. Fyrir grískum heimspekingum og
stjarnfræðingum var alheimurinn vel skilgreind heild hluta sem stóðu í
beinum tengslum hver við annan. Sú hugmynd að unnt sé að segja fyrir
um innbyrðis víxlverkanir þessara hluta er í grundvallaratriðum alls
ekkert frábrugðin eðlisfræðikenningum nútímans. Og hún sker sig ræki-
lega úr hugmyndum annaðhvort um geðþóttastjórn guðlegra afla eða um
hugsanleg áhrif töfrabragða á atburði. Þegar trúarbrögð, galdrar og
dulspeki eru annars vegar þá eru grundvallarkenningar stjörnuspekinnar
hrein vísindi . . .8)
Þótt hér sé talað afdráttarlaust og með réttu um stjörnuspeki nýsteinaldar
breytir það auðvitað engu um þá staðreynd að stjörnuspeki á okkar dögum
er bull, enda ber auðvitað að skoða hana í ljósi nútíma vísinda og þekkingar.
Eins og síðar verður að vikið telja ýmsir þeir sem fjalla um vísindi nú á
dögum miklu varða að draga sem skýrust mörk milli vísinda annars vegar og
annarra mannlegra hugmynda hins vegar, þar á meðal „gervivísinda" sem
þeir kalla svo (pseudoscience). Er þá stjörnuspekin oft og tíðum tekin sem
dæmi um gervivísindi. Þegar menn gera slíkt verða þeir að hafa í huga að
skilgreining þeirra er þá háð sögulegu samhengi: Stjörnuspekin hefur ekki
alltaf talist til „gervivísinda" þótt hún geti sjálfsagt flokkast þannig nú á
dögum.
Opin boðskipti
Mjög forvitnilegt skeið í sögu vísinda og annarra hugmynda er oft kennt við
borgina Míletos á vesturströnd Litlu-Asíu og svokallaða náttúruspekinga
sem þar bjuggu hver fram af öðrum á 6. öld fyrir Krist (Þales, Anaxímander,
Anaxímenes o.fl.). Arfurinn frá þeim barst síðan til Aþenu á blómaskeiði
hennar í andlegum efnum á fjórðu öld f.Kr. og síðan áfram allt til okkar
daga. I honum er að finna ýmis lykilatriði í hugmyndafræði eða aðferðum
vísinda, svo sem opin boðskipti, framvindu hugmynda með jákvceðri gagn-
rýni og einhvers konar skynsemistrú.
Með opnum boðskiptum á ég við það að boðskapur spekinganna í
Míletos var öllum opinn til umræðu og gagnrýni, en slíkt er auðvitað
forsenda framvindunnar sem ég kem að hér á eftir. Ég tel þessi opnu
boðskipti vera einkenni á vísindum í samanburði við ýmsa aðra starfsemi
177