Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 61
Hugmyndafrœdi vísindanna
hafi hafnað öllum tilvísunum til yfirskilvitlegra afla, svo sem guða, þegar
þeir voru að leita skýringa á margvíslegum fyrirbærum náttúrunnar. Þetta
atriði birtist okkur nú á dögum í tengslum vísinda við skynjun og skynsemi.
Hafa þess konar starfshættir trúlega borið mestan ávöxt í eðlisfræði. Þótt
mér sé þannig málið skylt vil ég eindregið vara við því að menn leggi of
mikla áherslu á þennan þátt, á kostnað annarra, í öðrum vísindagreinum
sem eru e.t.v. allt öðru vísi á vegi staddar á þróunarbrautinni. Skynsemistrú-
in getur farið út í öfgar með oftrú á stærðfræði og beitingu hennar, t.d. í
félagsvísindum þar sem menn eiga kannski eftir að læra það sem við höfum
lært af biturri reynslu í raunvísindunum, að stærðfræðin er aðeins hjálpar-
tæki sem okkur er frjálst en ekki skylt að nota og menn hafa oft komist að
mikilsverðum vísindalegum niðurstöðum án þess að beita neinni verulegri
stærðfræði.10’
Segja má að Míletos-menn hafi með skynsemistrú sinni lagt fyrstu drögin
að því að vísindi og trúarbrögð skildu að skiptum, en þeim skilnaði er
kannski enn ekki að fullu lokið þótt 2500 ár beri í milli. Eftir að kristin
kirkja kom til sögunnar var sambúð hennar við vísindin lengst af allbrösótt
þó að uppstytta kæmi í væringarnar á síðmiðöldum. En þeim mun harðari
varð orrustan sem skall á á 16. öld þegar svokölluð bylting Kópernikusar
hófst, en henni lauk raunar ekki fyrr en á 18. öld. Ofsóknir kirkjunnar á
hendur Brúnós og Galíleós á þessum tíma hafa haft úrslitaáhrif á sambúð
vísinda og kirkju þótt enn væri hnykkt betur á með andstöðu kirkjunnar
manna við þróunarkenningu Darwins. Nú á dögum eru flestir vísindamenn
þeirrar skoðunar að trúarbrögð séu a.m.k. vísindunum algerlega óviðkom-
andi hvað sem líður hlutverki þeirra að öðru leyti. Þannig telja þeir í reynd
að fyrrnefndum skilnaði þessara tveggja hugmyndaheima sé algerlega lokið.
I framhaldi af þessu hafa ýmsir viljað draga landamæri vísindanna sem
allra skýrast gagnvart öðrum hugmyndum manna. Ef slíkt tækist gætum við
hvenær sem er skilið sauðina frá höfrunum í hugmyndum manna eða hug-
myndakerfum og kveðið afdráttarlaust á um hvað teljist til vísinda og hvað
ekki. Mundi þá einu gilda þótt einhverjir fylgismenn einhverra hugmynda
vilji endilega kalla þær vísindi. Þegar fylgst er t.d. með Velvakanda Morgun-
blaðsins er vissulega ekki fyrir það að synja að það gæti verið býsna þægilegt
að eiga í handraðanum þvílíka aðferð til að afmarka vísindin.
Þeir höfundar sem hafa gengið harðast fram í afmörkuninni, eins og fyrr-
nefndur Karl Popper, hafa einkum beint spjótum sínum að dæmum eins og
stjörnuspeki nútímans, sálgreiningu Freuds og marxismanum. Hafa þeir
reynt að setja fram ákveðnar reglur sem skeri úr um það að ekkert þessara
hugmyndakerfa teljist til vísinda. Af þessari áráttu hafa sprottið miklar
deilur, ekki síst um stöðu sálgreiningarinnar og annarra sálarfræða og
179