Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 9
Pétur Gunnarsson:
Um ríkiskenningu Marx
Sérstök greinargerð um ríkið er ekki til frá hendi Marx, hins vegar gengur
kenning hans ljóst fram af verkum þar sem hann fæst við að kryfja ákveðin
söguleg tímabil og útskýra þau út frá efnahagslegum forsendum. Þau helstu
eru Stéttabaráttan í Frakklandi, Átjándi Brumaire Lúðvíks Bónaparte, og
Borgarastríðið í Frakklandi. I þessum verkum er leitast við að rekja pólitíska
baráttu til hagsmunaárekstra milli þjóðfélagsstétta, sýna fram á hvernig
stéttir ákvarðast af efnahagsþróun og með hvaða hætti stjórnmálahreyfingar
eru tjáning þessara stétta og hópa.
Meginatriði í sambandi við ríkiskenningu Marx er hvernig ríki og
stéttabarátta tengjast saman. Með stéttabaráttu er átt við innbyrðis afstöðu
stétta í tilteknu framleiðslufyrirkomulagi þar sem einum samfélagshóp er
kleift að arðnýta vinnu annarra. Þetta spennuhlaðna ástand þarfnast
öryggisventils, hagræðingar, réttlætingar og það er einmitt ríkið sem gegnir
þessu hlutverki með þar til gerðum stofnunum: her, embættismannakerfi,
hugmyndafræði, osfrv. Ríkið er tæki til að ríkja og þá auðvitað tæki ríkjandi
stéttar.
Strax í Kommúnistaávarpinu er yfirlit yfir hina almennu söguþróun og
leidd rök að því að ríkið sé stéttadrottnunartæki og sú ályktun dregin að
verkalýðurinn geti ekki steypt borgarastéttinni af valdastóli nema með því
að ná í sínar hendur pólitísku valdi og breyta ríkinu úr borgararíki í
verkalýðsríki, þ. e. „öreigarnir skipulagðir sem ríkjandi stétt“.
Atburðir sem urðu nánast samtímis útkomu Kommúnistaávarpsins: bylt-
ingarhrinan sem reið yfir meginland Evrópu árið 1848, sýndi fram á
takmarkanir Kommúnistaávarpsins hvað snerti kenninguna um ríkið og
afstöðu verkalýðsbyltingar til ríkisins. Það byltingarlíkan sem Marx hafði í
huga var Franska byltingin 1789, hin klassíska borgaralega bylting. Nú er
svo háttað um völd borgarastéttarinnar að þau vaxa fram innan samfélags-
gerðar lénsskipulagsins þar sem borgarastéttin nær smátt og smátt efnahags-
legum undirtökum í kjölfar ytri atburða. Dæmi: fundur Ameríku, siglinga-
leiðar til Indlands, og sú aukning á verslun og viðskiptum sem fylgdi í
kjölfarið. Hinar borgaralegu byltingar á sautjándu og átjándu öld eru fyrst
og fremst staðfesting þessara efnahagslegu valda á hinu pólitíska sviði. Þær
127