Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 99
Tvö rit um bókmenntasamanburð
hann líkingar með sögunum og ritum þessum. Annars er líklegt ef spak-
mælanotkun hefur verið jafnrík og Hermann segir að þau hafi verið orðin
almennt góss. Og auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að þau hafi verið felld
inn í munnlegt frásagnarefni eins og bóklegan lærdóm. Enda er nokkur
undansláttur fólginn í því af hálfu Hermanns þegar hann segir:
Um dæmi þau, sem hér verða tínd úr Hrafnkels sögtt og tekin til
samanburðar við latnesk rit, er það skemmst að segja, að sumir
orðskviðirnir kunna að vera af norrænum rótum runnir, þótt svipaðir
séu latneskum setningum. (bls. 36)
Verður þá vart séð að sumar líkingarnar sem hann tínir til séu annað en
rökstuddar tilgátur rétt eins og hann telur niðurstöður af rannsóknum á
arfsögnum um sagnaefni hljóti að vera. Það er því óþarfi hjá honum að kasta
rýrð á rannsóknir annarra fræðimanna á öðrum þáttum verkanna ekki síst
þegar hægt er að samræma sjónarmiðin. Það hefur t. d. Lars Lönnroth sýnt í
verki sínu, Njáls saga: A Critical Introduction (Berkeley, 1976). Þar færir
hann rök að því að ýmislegt af efni sögunnar og frásagnarmynstrin séu sótt í
arfsagnir en á hinn bóginn séu ýmsar hugmyndanna sóttar í erlend rit. Eru
niðurstöður hans einmitt dæmi um það hverju unnt er að áorka í fornsagna-
rannsóknum ef leiðum er ekki lokað fyrirfram af hleypidómum og meinlok-
um eins og títt hefur verið og Hermann er ekki laus við. T. a. m. virðist
hann gera ráð fyrir að arfsagnir séu sannfræðilegar. Hitt er réttara að jafnvel
þær sagnir sem hafa gengið af raunverulegum atburðum og fólki hafa
aflagast svo í meðförum að sannleikskjarninn í þeim getur verið næsta lítill.
Hermann á þakkir skildar fyrir að fást við og benda á erlendar hliðstæður
ýmissa hugmynda í Islendingasögum. Slíkar rannsóknir hafa verið allt of
lítið stundaðar, líklega m. a. vegna þess að menn hefur skort þekkingu á
þessum þætti miðaldafræða. Aður hefur hann í ritum um Hrafnkels sögu
fjallað um sameiginleg atriði og skyldleika hennar og útlendra rita sem til
voru í norrænum þýðingum, Alexanders sögu, Gyðinga sögu og Stjórnar. I
ritgerð sinni, Grafizt fyrir um Grettlu rætur bendir hann ekki aðeins á
hliðstæður við ofangreind latínurit heldur einnig merki um hugmyndir í
Grettlu sem er að finna í ýmsum þýddum ritum, svo sem Samúelsbókum,
Jobsbók, Davíðssálmum, Prédikaranum og Antoníus sögu. Hermanni er
auðvitað ljóst að siðfræðin er aðeins einn þáttur verkanna. Hann segir í
umfjöllun sinni um Grettis sögu:
Við getum . . . talað um þrenns konar merkingu eða gildi Grettlu,
eftir því hvort við tökum hana sem lýsingu á fornum atburðum
TMM VII
217