Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 68
Tímarit Máls og menningar
áhrifum mun sjálfsvitund vísindanna halda áfram að eflast. Nánar tiltekið
koma mér í hug eftirfarandi atriði í þessari þróun:
Vísindamenn taki sér í vaxandi mæli verkefni úr nánasta umhverfi
sínu og beiti sérþekkingu sinni þar.
Fylgifiskar „framfara" í vísindum og tækni (mengun, náttúruspjöll,
auðlindasóun, félagslegar afleiðingar borgalífs og stórrekstrar o.s.frv.)
verði vaxandi hluti af viðfangi vísinda.
Fræðsla um verkefni og niðurstöður vísinda verði viðurkenndur
þáttur í hlutverki vísindasamfélagsins, en ekki litin hornauga eins og
nú er.
Almenn fræðsla í skólum og annars staðar haldi áfram að þróast til
samræmis við nýjustu viðhorf í hugmyndafræði vísindanna.
Og með þessari upptalningu slæ ég botn í þessa ritsmíð í þeirri von að
hún gefi mönnum tilefni til umhugsunar og umræðu svo sem henni er ætlað.
Viðfangsefnið er hins vegar þannig vaxið að ég á ekki von á því að allir verði
á eitt sáttir um það sem ég hef borið á borð.
Raunvísindastofnun Háskólans á áramótum 1982—3.
N eðanmálsgreinar
1) Þórbergur Þórðarson, „Bréf til jafnadarmanns“ (1928), endurprentað í Einum
kennt - öðrum bent, bls. 85. Aðrir seðlar vísa í rit eftir Sigurð Einarsson (1938)
og Einar Olgeirsson (1938 og 1954). - Ég þakka Merði Árnasyni, starfsmanni
Orðabókar, fyrir greinargóðar upplýsingar um þetta orð og önnur því skyld.
2) I samræmi við ýmsar heimildir mínar (sjá Rose & Rose og Ravetz í heim-
ildaskrá) hef ég hér bæði í huga hugmyndafræði visinda og hugmyndafræði í
vísindum: ideology of/in scicnce.
3) Nánar tiltekið eru útlistanir orðabókanna sem hér segir, í íslenskri þýðingu
minni:
„Hugsunarháttur eða inntak hugsunar sem er einkennandi fyrir einstakan
hóp eða menningu <hugmyndafræði borgaranna> <hugmyndafræði læknis-
fræðinnar, lögfræðinnar eða annarra starfsgreina>.“ (Webster’s Third New
Intemational Dictionary, 1961; undir ideology. — Oddklofarnir tákna orðrétt
dæmi um notkun orðsins.).
„Það kerfi kenninga, goðsagna, tákna o.s.frv., sem heyrir til einni félags-
hreyfingu, stofnun, stétt eða stórum hópi.“ (Random House College
Dictionary, 1975).
186