Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 17
Hugmyndir Marx um lýðrtedi og sósíalisma
stjórnunarstörfum, hermennsku og skriffinnsku á víxl eftir því sem þörfin
krefði hverju sinni, en eyddu ekki allri ævinni í þessari stofnun. Sem dæmi
um nákvæmari útlistanir Marx má taka hugmyndir hans um hina kjörnu
pólitísku fulltrúa og hlutverk þeirra. Hinir kjörnu fulltrúar verða settir til
þess að gegna bæði löggjafarhlutverki og sjá um framkvæmd löggjafar. Þeir
verða ekki kjörnir til ákveðins tíma heldur skal umboð þeirra vera aftur-
kallanlegt hvenær sem er, sjálfstætt hlutverk þeirra verður tiltölulega lítið;
þeir eru settir til hagræðingar til að gegna ákveðnum stjórnunarstörfum.
Hann lagði til, að hinir kjörnu fulltrúar skyldu hafa meðalverkamannalaun
og ekki meira. Allt þetta kvað hann nauðsynlegt til að koma í veg fyrir
spillingu og myndun sérstakrar stjórnunar- eða yfirstéttar. Hugmyndir
Marx benda til þess, að hann hafi haft í huga fremur lítið samfélag eða smáar
einingar undir sjálfstjórn frjálsra framleiðenda, sem síðan væru tengdar
saman. Um verkaskiptingu og tengsl hinna smærri eininga hafði Marx lítið
að segja, enda taldi hann ekki gjörlegt að segja fyrir um þá þróun.
Hvernig hugsaði Marx sér að koma þessu samfélagi á laggirnar? Hvernig
skal baráttan fyrir sósíalismanum háð? Hér er um viðkvæma hluti að ræða,
því eins og menn vita hafa baráttuleiðir sósíalista valdið miklum klofningi
og deilum.
I ritum Marx kemur fram, að hann taldi að verkalýðsstéttin gæti gert
bandalag við borgarastéttina, en aðeins við sérstakar kringumstæður. Þessi
leið er fær, þegar þingræði hefur ekki verið komið á — verkalýðsstéttin og
borgarastéttin hagnast báðar af þingræði og því geta þær snúið bökum
saman í þeirri baráttu. Þessi leið er einnig fær, ef þingræði er ógnað. Að
öðru leyti verður verkalýðsstéttin að leggja stund á sjálfstæða pólitík, sem
felst í því að tekið er mið af heildarhagsmunum stéttarinnar. Og heildar-
hagsmunir verkalýðsstéttarinnar eru þeir að gera byltingu. Arðránið og
einkaeignin á framleiðslutækjunum verða ekki afnumin öðru vísi. Hvernig
hafði Marx hugsað sér, að byltingin færi fram, kunna menn að spyrja. Marx
setti ekki fram neina algilda forskrift í þessum efnum — hann tók ekki af
skarið með það, hvort þessi þróun gæti farið fram með friðsamlegum hætti
eða hvort ofbeldi væri óumflýjanlegt. Þessi atriði hafa hins vegar verið
bitbein sósíalista um áraraðir. Sumir halda stíft fram alræði öreiganna, eins
og það var túlkað af ýmsum sporgöngumönnum Marx og vitna í ýmsa texta
eftir hann. A móti má síðan veifa öðrum textum, þar sem þingræðisleiðinni
er haldið á lofti. Marx hafði meira að segja ýmislegt að segja um þróun hins
almenna kosningaréttar, sem enginn venjulegur sósíaldemókrati myndi taka
undir nú á dögum. Marx sagði t. d. á einum stað, að þróun almenns
kosningaréttar jafngilti pólitísku valdi verkalýðsstéttarinnar. Ég held, að
enginn sósíaldemókrati, sem vildi standa undir nafni, tæki undir þessi orð
135