Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 78
Tímarit Máls og menningar
Oft hafði Lorca ort um dauðann, þótt þetta kvæði sé einna
kunnast til marks um hve mjög dauðinn ásótti hug skáldsins.
Sjálfur var hann drepinn að morgni dags, skotinn eins og hundur af
illþýði fasismans, þeim sem hljóta að hata skáld, alla merkisbera
mannsandans. Hann mun hafa verið skotinn snemma morguns með
lítilli viðhöfn og hneig, eins og hann segir í fyrrnefndu ljóði: en un
montón de perros apagados, í haug af káluðum hundum.
El crimen fué a Granada, glæpurinn var framinn í Granada, segir
Machado sem vissi ekki betur. Lorca var tekinn í húsi vinar síns í
Granada, fæðingarborg sinni. Og færður til Viznar sem er nærri og
myrtur þar. Ovopnaður maður og varnarlaus.
Og búinn þó þeim vopnum að hann verður aldrei yfirunninn.
IV. Skilaboð
Þegar ég kom að krá í slakka Sacromonte fór ég inn til að fá mér glas
af rauðu víni, eða því sem líka nefnist vino negro, svartavín. Það var
verkamannakrá. Og fyrir mig voru borin tíu glös þegar ég bað um
eitt og tjóði ekki að hreyfa andmælum, menn kepptust við að brynna
mér, þetta er okkar land. Og báðu mig fyrir skilaboð sem ég kom á
framfæri við fyrsta tækifæri fyrir áratugum.
Segðu frá því, sögðu þessir gestrisnu menn í Granada: ef þú vilt
gera okkur greiða, þá máttu segja frá okkur að við lifum í helvíti.
E1 crimen fué a Granada. E1 crimen fué en Espana. Eg hef aldrei
komið til Granada síðan glæpalýð fasista að lokum var steypt, og
Franco loksins drapst.
Eins og ellimóð hýena.