Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Side 12
Líney Jóhannesdóttir
Ólánsmerkið
í grænum hlaðvarpa er gott fyrir dálítinn drenghnokka að leika sér.
Þegar sólin skín, fer mamma snemma út á morgnana með gullakassann
og setur hann niður sunnan undir vegg, því þar er alltaf logn og hiti.
Drengurinn kemur sjálfur út á eftir, með ljúfuna sína í fanginu. Það
fyrsta sem hann gerir, er að leggja hana frá sér í grasið, á meðan hann
byggir henni hús, en það gerist í einu vetfangi. Hann hvolfir gullun-
um úr kassanum og reisir hann síðan upp á endann, þá er húsið
komið handa ljúfunni. Þar situr hún svo allan daginn og rótar sér
ekki, nema því aðeins að drengnum detti í hug að bera hana eitthvað
með sér.
Stundum gleymir hann ljúfunni tímunum saman, en það gerir
henni ekkert til, því á kvöldin gleymist hún aldrei. Þó hún sé bæði
sköllótt og blind fyrir löngu, getur drengurinn ekki sofnað án hennar
í fanginu.
Næsta morgunverkið er að taka prikið sem stendur upp við
vegginn og setja það á beit. Það er hesturinn, sem hafður er úti dag og
nótt. „Honum veitir ekki af að kroppa dálítið,“ segir drengurinn og
mamma hlustar brosandi á búmannstalið. Samtímis heyrir hún gjálfr-
ið í bæjarlæknum sem rennur niður túnið, þessi gamalkunni niður
vekur hjá henni unað, og andartak finnst henni hún sjálf verða aftur
að ofurlítilli stúlku og hún hlustar hugfangin á dularfullan klið
náttúrunnar. Andartakið líður fljótt og mamma rennir augunum
snögglega niður með læknum. Hann er hvergi djúpur, af honum
stafar engin hætta — þó aldrei nema drengnum dytti í hug að hlaupa
niður að honum. Annað mál er með Lómapollinn. Hann sést líka vel
frá varpanum, því bærinn stendur hátt í brekku. Og þegar sólin
glampar svona á pollinn, er hann eins og gulltjörn í grænni mýrinni.
Þar syndir lómurinn kvelds og morgna og fólkið á bænum hlustar
eftir hljóðunum í honum. Enginn kann þó betur en afi að spá um
veðrið eftir því hvernig lómurinn lætur.