Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Page 18
Tímarit Máls og menningar
vera farinn að sækja þangað niður eftir svona ungur? Hættan var of
mikil til þess að afi gæti sætt sig við þá tilhugsun. Hann mundi að
hamrarnir fyrir ofan hesthúsið voru engu síður freistandi fyrir ungan
dreng. Þar flugu krummar upp undir brúnunum og í urðinni var
hægt að fylla vasana af gljásteinum. Þangað heyrði enginn þó kallað
væri að heiman.
Afi tvísté. Ætli hann hefði sig ekki alla leið þótt það væri dálítið
bratt? Gatan lá í hlykkjum upp túnið. Afi reyndi að setja stafinn
dálítið fram fyrir sig og gera hann á þann hátt að létta. En hvernig
sem hann reyndi að flýta sér fylgdu fæturnir ekki huganum, þeir
drógust áfram og leiðin virtist óendanlega löng. Hann varð sífellt
óttaslegnari eftir því sem hann nálgaðist hesthúsið. Ef drengurinn
væri þar ekki þá var vísast að hann hefði farið í pollinn. Loks hélst
hann ekki lengur við á götunni, en sté út í grasið og stytti sér leið yfir
túnið.
A stóra steininum bak við hesthúsið sat drengurinn. Afa varð svo
mikið um, að hann varð að stinga stafnum fast niður og halda sér í
hann svo hann ryki ekki um koll. Það hvein í lungunum á honum og
honum fannst hjartað vera í höfðinu á sér og slá þar af öllum mætti.
Drengurinn leit upp og ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum.
Þarna stóð afi sem varla komst hjálparlaust út á varpann. Skyndilega
varð honum ljóst hversvegna afi stóð þarna og varð niðurlútur.
Afi jafnaði sig furðu fljótt og tyllti sér niður á steininn við hliðina á
drengnum. Hann fálmaði eftir pontunni sinni, svo hann gæti hresst
sig dálítið eftir gönguna.
Það leyndi sér ekki að drengurinn var með ekka og þó langt væri
síðan afi hafði grátið, þá vissi hann, að betra var að þurfa ekki mikið
að segja þegar þannig stóð á. Réttast væri að hann hefði sjálfur orðið.
Hann dró upp dropótta klútinn sinn og snýtti sér vel og rækilega.
Það söng í nefinu á honum og þau hljóð ýttu ekki undir neinar
skælur.
„Við skulum labba niður eftir nafni minn, það getur slegið að
okkur við að sitja svona,“ sagði hann og rétti drengnum höndina.
Um leið tók hann eftir, að hönd drengsins var lokuð. Máske var
eitthvað leyndarmál í þessum litla hnefa — hugsaði afi, og rétti fram
hina höndina. Hann hummaði og ræskti sig meðan hann hugsaði sig
um hvað hann ætti helst að segja. Nú hafði hann aftur fundið öryggi
488