Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Síða 51
Sólarhringur í draumi og vöku
Ég gekk um húsið og skildi alls ekkert í þessu ryki, sem settist á
andlit mitt. Ég var í kjallaranum og hugsaði með mér, að það hlyti að
koma þaðan. Þegar ég steig á fyrsta þrepið, fylltust vit mín svo
skyndilega af ryki, að ég hnerraði. Aatsjú.
Ég reyndi að átta mig á því hvar ég var.
Kústur dansaði fyrir framan augun á mér, og götusópari þyrlaði
gangstéttarrykinu framan í mig.
„Hvað er að gerast? Hvar er ég? Sef ég kannski ennþá?“
En ég svaf ekki. Ég kom auga á handvagninn hans pabba. Ég
heyrði hávaðann í leigubílunum og ég starði á húsin við gatnamótin í
daufri morgunskímunni. Ég var ekki sofandi.
„Jæja. Þetta var þá bara draumur. Nei. Víst var mig að dreyma.
Nei, nei, nei.“
Pabbi beygði sig yfir mig og sagði: „Ertu sofandi, Latíf?“
„Nei, nei, nei,“ svaraði ég.
„Hvers vegna hróparðu þá svona? Komdu uppí til mín.“
Hann lagði handlegginn undir höfuð mitt, en mér tókst ekki að
sofna. Maginn var tómur. Hungrið nagaði mig að innan.
Þegar pabbi sá, að ég svaf ekki, sagði hann: „Þú komst seint heim í
gærkvöldi. Ég var þreyttur og fór snemma að sofa.“
Eg sagði honum, að ég hefði séð slys og að það hefði tafið mig. Þá
spurði ég hann hvort úlfaldi gæti talað og flogið.
„Nei, það getur hann ekki.“
„Nei, úlfaldinn hefur ekki vængi.“
„Hvað er að þér sonur minn? Þú talar um úlfalda á hverjum einasta
morgni. Hvað gengur eiginlega að þér?“
Eg var annars hugar og sagði við hann:
„Það er gott að vera ríkur. Maður getur borðað allt, sem mann
langar í og maður getur keypt allt. Er það ekki pabbi?“
„Eg vil ekki heyra svona guðlast. Guð veit hverjum ríkidæmið ber,
og hverjum fátæktin."
Pabbi talaði alltaf svona.
Það var þegar orðið bjart af degi. Pabbi tók flókaskóna sína undan
höfðinu, klæddi sig í þá, og við fórum niður af handvagninum.
TMM
521