Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Page 60
Njörður P. Njarðvík:
Þegar framtíðin er liðin hjá
Friðarsinnum vex fiskur um Hrygg víða um heim, og er skemmst að minnast þess er
íslenskir listamenn stofnuðu sín friðarsamtök 3. október síðastliðinn. I haust kemur
út hjá Máli og menningu listrænt framlag til þessarar umræðu, ný skáldsaga eftir
sænska rithöfundinn P C Jersild, Eftir flóðið, í þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Jersild
starfar ötullega í friðarsamtökum sænskra lækna.
Sænski rithöfundurinn Per Christian Jersild (f. 1935) á þegar langan og
fjölbreytilegan rithöfundarferil að baki. Hann kvaddi sér hljóðs árið 1960
með smásagnasafninu Rdkneldra, en hefur síðan fyrst og fremst einbeitt sér
að skáldsagnagerð. Hann sló í gegn strax með fyrstu skáldsögu sinni Till
varmare lander (1961), og þá þegar koma fram helstu höfundareinkenni
hans, annars vegar einstök lagni við að blanda saman raunsæi og ímyndun,
og hins vegar síendurteknar lýsingar á tilfinningakulda hins tæknivædda
þjóðfélags nútímans, sem hann telur að stefni mannlegri tilveru í ógöngur,
svo að ekki sé fastar kveðið að orði. Jersild er læknir að menntun og
spurningar um ábyrgð og siðferði þekkingar og vísinda hafa leitað fast á
hann, má raunar segja að þær séu uppistaða flestra verka hans í einhverri
mynd. Þannig lýsir Grisjakten( 1968) embættismanni eða eigum við að segja
möppudýri, sem er reiðubúinn að leysa hvert það verkefni sem fyrir hann er
lagt af tilhlýðilegum yfirvöldum, svo fremi það sé sett fram á skynsamlegan
hátt. Vandi hans er fólginn í að leysa verkefnið vel og óaðfinnanlega með
aðstoð þeirrar tækni sem honum stendur til boða. Við þetta glímir hann, en
hann spyr ekki um tilganginn, og enn síður um afleiðingarnar. Það er
annarra að brjóta heilann um þess háttar vandamál. í Djurdoktorn (1973) er
sagt frá miðaldra konu sem er ráðin að vísindastofnun sem fæst við
læknisfræðilegar tilraunir á dýrum. Tilgangurinn með ráðningunni er ekki
tengdur umhyggju fyrir dýrunum, hún á eingöngu að sjá um að þau skili
sem bestum árangri. En levande sjal (1980) segir frá heila sem haldið er
lifandi í tilraunaskyni. Babels hus (1978) er úttekt á heilbrigðisþjónustunni í
Svíþjóð. Lesandinn fylgist með sjúklingi sem leggst inn á sjúkrahús og fylgir
honum eftir þar til hann deyr, en hann er ekki aðalpersóna bókarinnar,
heldur sjúkrahúsið sjálft. Það er tæknilega vel búið, þekking starfsfólksins
óaðfinnanleg, en mannleg hlýja ekki fyrirferðarmikil að sama skapi. Sagan
530