Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Page 159
þar sem þeir léttreykja kjöt og tilfallandi smáræði. Einkum er þetta al-
gengt með vatnafisk og síld. Eins og reykhúsin er þessi búnaður af marg-
víslegum toga. Eldstæðin eru oft útihlóðir, gryfja eða tunna, með ein-
hvers konar þekju til varnar úrkomu. Auk þess að kæla reykinn hefur
kaldreykingarbúnaðurinn þann kost að rýmið sem matvælin eru hengd í
þarf ekki að vera stórt um sig eða hátt til lofts.
Eftirminnilegasti búnaður af þessu tagi sem ég hef rekist á var stýrishús
af gömlum Bedford vörubíl fullt af sauðalærum (sjá 5. mynd). Það tróndi
á hólkolli en í brekkurótunum var eldstæðið og reykleiðsla í jörð á milli.
Kaldreykingarbúnaður af einhverju tagi virðist hafa verið þekktur alla
öldina. Einstaka heimildarmenn þekktu ekki til kaldreykingabúnaðar, í
sumum byggðum hafði hann verið algengur áður en lagst af og annars
staðar höfðu flestir eldinn utan við reykrýmið.
Eldstæði og loftræsting
Eldstæðin eru af ýmsum gerðum. Ekki þarf endilega að vera munur á
eldstæðum við kaldreykingu og kofareykingu annar en sá að í öðru til-
fellinu er eldstæðið úti, í hinu er það inni. Í gömlu eldhúsunum voru
hlóðirnar að sjálfsögðu notaðar, oft byrgðar með plötum til að dreifa reyk
eftir að pottar hættu að gegna því hlutverki. Í húsum sem á eftir komu
voru oft áfram einhvers konar hlóðir en einnig eldbúnaður af öðru tagi.
Járntunnur og stampar sömuleiðis byrgð með plötum og oft götuð, bæði
vegna loftaðgengis og svo til að gera uppkveikju auðveldari eru t.d.
langalgengustu eldstæðin á Vestfjörðum. Holur í gólfi, byrgðar með járn-
plötum – sturtubotni í einu tilfelli – lóðabali, sláturpottur og margt fleira
var nefnt. Dæmi eru um tvö og jafnvel fleiri eldstæði í stærri reykhúsum
og kveikt upp í báðum til að dreifa reyknum sem best um húsið. Þá
þurfti ekki að færa kjötið mikið til á reyktímabilinu. Sum eru hugvitsam-
lega búin til að dreifa reyk og halda glóð sem lengst. „Fyrir nokkrum ár-
um útbjó ég langar rennur úr járni sem ég set tað í og kveiki upp í öðr-
um endanum þá færist glóðin smám saman og rýkur lengi. ...“ sagði einn
heimildarmanna. Annar, sem reykti í stórum álskáp, lét smíða undir hann
skúffu fyrir eldinn sem hægt var að draga undan en reykop var bæði á
botni og loki skápsins. Skúffunni var skipt í tvennt eftir miðju þó þannig
að eldhólfin tengdust öðrum megin. Við annan endann var svo kveikt
upp og það tók glóðina um sólarhring að éta sig allan hringinn.9
Þegar skoðuð eru svör við spurningaskrá um eldhúsið sem Þjóðminja-
safn sendi út árið 1982 kemur í ljós að merkjanlegur landshlutamunur er á
158 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS