Són - 01.01.2005, Blaðsíða 5
Til lesenda
Lesendum gefst nú kostur á að bergja í þriðja sinn á miði Sónar. Eins
og í fyrri heftum er efnið nokkuð fjölbreytt og frá ýmsum tímum þótt
meiri áhersla liggi að þessu sinni á síðari tíma skáldskap. Í fyrsta
skipti er nú reynt að standa við það fyrirheit, sem gefið var í fyrsta
hefti, að fjalla um nýútkomnar ljóðabækur. Það gerir Hjalti Snær
Ægisson í grein sinni „Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004“.
Són er að þessu sinni tileinkuð skáldinu Einari Braga sem lést fyrr
á árinu og er Sónarljóð þessa rits eftir samísku skáldkonuna Rose-
Marie Huuva í þýðingu hans. Þetta er ljóðið um dauðann og duftið
og öskuna og hringrás lífsins.
Einar Bragi Sigurðsson fæddist á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann varð
stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Vorið 1945 kvæntist
hann Kristínu Jónsdóttur frá Ærlækjarseli í Öxarfirði. Hann nam lista-
sögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi (1945–1946) og Stokk-
hólmi (1950–1953). Hann stofnaði tímaritið Birting eldra 1953 og gaf
það út í tvö ár. Þá var hann ábyrgðarmaður Birtings yngra 1955–1968
og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Thor Vilhjálmssyni og Herði Ágústssyni.
Birtingur var barátturit fyrir nýjum stefnum í bókmenntum og listum og
hafði meðal annars víðtæk áhrif á viðhorf manna til ljóðlistar. Í grein
sinni um Birting í þessu hefti Sónar lýsir Vésteinn Ólason þeim nýju og
fersku hugmyndum sem fram komu í ritinu.
Bókmenntastörf Einars Braga eru mikil að vöxtum og margvísleg.
Hann skrifaði Eskju, sögu heimbyggðar sinnar, í fimm bindum. Einnig
samdi hann fjölda frásagnarþátta og gaf út bernskuminningar sínar, Af
mönnum ertu kominn. Þá þýddi hann nokkrar skáldsögur og fjölda leik-
rita. Ber þar hæst Hús Bernhörðu Alba eftir Federico Garcia Lorca og
Leikrit Augusts Strindbergs og Leikrit Henriks Ibsens, hvors um sig í tveim
bindum. Einna snarastur þáttur í ritmennsku Einars Braga er þó
ljóðagerð. Hann var skeleggur baráttumaður fyrir endurnýjun forms-
ins á 20. öld og má segja að hann hafi farið fyrir atómskáldunum
svonefndu. Fyrsta ljóðabók hans, Eitt kvöld í júní, kom út 1950, Svanur
á báru 1952, Gestaboð um nótt 1953, Regn í maí 1957, Hreintjarnir 1960 (2.