Són - 01.01.2005, Blaðsíða 92
92 ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
Let us go, through certain half-deserted streets,
The muttering retreats
Of restless nights in one-night cheap hotels
And sawdust restaurants with oyster-shells …
þar sem endurtekin r-, s-, t-hljóð en einkum st- og ts-hljóðasambönd
eru áberandi (streets, retreats, restless, sawdust, restaurants, oyster-
shells), meira en svo að hending ráði.8
Mér hefur orðið tíðrætt um samræmið í ljóði Stefáns, en það var
eins og áður segir einkennandi fyrir allan skáldskap á Vesturlöndum
frá upphafi hans hjá Grikkjum hinum fornu, en tók þó á sig mis-
munandi myndir. Við ljóðbyltinguna sem hófst á seinnihluta 19. aldar
í Frakklandi gerðist það hinsvegar, meðal annars, að skáldin urðu
afhuga samræmi af þessu tagi. Hvað olli þeim sinnaskiptum?
Allt breytist …
Við vitum að bókmenntir breytast frá einum tíma til annars. Til
dæmis eru löng epísk kvæði á borð við Hómerskviður ekki ort lengur,
dróttkvæði og rímur heyra sögunni til, en hvað veldur breyting-
unum? Eru þar innri orsakir að verki eða ber að leita þeirra utan bók-
menntanna? Flestir aðhyllast líklega þá skoðun að orsakanna sé að
leita í breyttum heimi en þó er það ekki einhlítt svar, enda er þá
óskýrt hvernig breyttur heimur leiðir til breyttra ljóða.
Rússnesku formalistarnir (Roman Jakobson, Viktor Shklovskí,
Boris Eikhenbaum o.fl.) á öðrum áratug síðustu aldar beindu athygli
sinni að því sem þeir kölluðu bókmenntaleika, því sem greindi bók-
menntir frá nytjatextum, með öðrum orðum að tungumálinu og
ýmsum þeim listbrögðum sem skáldin beittu til að ná áhrifum, svo
sem því að framandgera texta á margvíslegan máta. Slík bókmennta-
leg stílbrögð fölna við notkun og sífellt þarf að finna ný. Bókmenntir
eru samkvæmt þessari skoðun með innbyggðu hreyfiafli, þær breytast
af sjálfu sér vegna þess að nýjungar úreldast óðar en varir. Í þessu er
tvímælalaust fólginn sannleikskjarni, þannig má skýra ýmsar minni-
háttar breytingar, en í rauninni er þetta ekki annað en skýring á því
8 Því má bæta við þennan samanburð á ljóðum hinna misgömlu jafnaldra að Eliot
lauk við „Prufrock“ í París og München 1911 og Stefán orti „Vorsól“ að líkindum
í Reykjavík skömmu síðar. Um það kvæði segir Halldór Laxness (1962:106): „…
mun vera ort í Unuhúsi vorið 1912 eftir sjúkdómsvetur og þreingínga“.