Són - 01.01.2005, Blaðsíða 6
6
útgáfa 1962), Í ljósmálinu 1970, Ljóð 1983 (úrval) og Ljós í augum dagsins
árið 2000 (úrval). Einar Bragi var stöðugt að fága ljóð sín og eru síðari
ljóðabækur hans strangt endurskoðað úrval þeirra fyrri. Í eftirmála við
Í ljósmálinu segist hann ánægður „ef takast mætti að ljúka einu boðlegu
ljóði fyrir hvert ár ævinnar. Segja má, ég hafi alltaf verið að yrkja sömu
bókina …“ Og bætir síðan við í lokin: „Ég hlýt því að biðja grandvara
lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóðabókum mínum en þeirri
seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“ Í ljósi
þessa er eftirtektarvert að sjá að í seinustu bók hans með frumsömdum
ljóðum, Ljós í augum dagsins, eru aðeins fjörutíu ljóð. Hún kom út þegar
fimmtíu ár voru liðin frá útkomu þeirrar fyrstu.
Einar Bragi fékkst mikið við ljóðaþýðingar, einkum á síðari árum.
Er ekki síst fengur að þýðingum hans á ljóðum eftir grænlensk sam-
tímaskáld í bókinni Sumar í fjörðum (1978) og þýðingum hans á ljóðum
Sama. Hefur hann gefið út sjö bækur með þýðingum samískra bók-
mennta og kynnt skáldin og samískra menningu fyrir Íslendingum.
Fyrsta bókin, Hvísla að klettinum, kom út 1981 og voru í henni bæði
ljóð og laust mál. Síðan hefur hver bókin af annarri komið út með
ljóðaþýðingum hans úr samísku: Bjartir frostdagar eftir Rauni Magga
Lukkari (2001), Móðir hafsins eftir Synnøve Persen (2001), Kaldrifjaður
félagi eftir Rose-Marie Huuva (2002), Handan snæfjalla eftir Paulus Utsi
(2002) og Víðernin í brjósti mér eftir Nils-Aslak Valkeapää (2003).
Seinasta bókin, Undir norðurljósum – samísk ljóð kom einnig út 2003. Í
henni eru þýðingar á ljóðum fjórtán samískra samtíðarskálda og í
eftirmála hennar kemur fram að hann hafi nú þýtt ljóð þrjátíu sam-
ískra skálda auk sýnishorna „af jojktextum, þjóðsögum og ævintýrum
frá fyrri öldum.“
Af framansögðu má fullyrða að enginn einn maður hafi kynnt
mennigu Sama jafnrækilega á sína tungu eins og Einar Bragi hefur
gert á íslensku. Það er því við hæfi að Sónarljóð þessa heftis sé sótt í
þann mikla þýðingasjóð. Ljóðið „Heimvon“ í búningi Einars Braga
birtist fyrst í Hvísla að klettinum 1981 og síðan árið eftir í Ljóðum, úrvali
ljóða og ljóðaþýðinga skáldsins. Seinast birtist það nafnlaust í bókinni
Kaldrifjaður félagi, þýðingu Einars Braga á ljóðabók Rose-Marie
Huuva Galbma Rádna. Hér er ljóðið prentað eftir þeirri útgáfu en heiti
þess úr fyrri bókum látið halda sér.
Fyrir hönd Sónarsinna,
Kristján Eiríksson