Són - 01.01.2005, Blaðsíða 62
RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON62
Samkvæmt þessu lítur Jón á hina tvöföldu ljóðstafi sem fegurðar-
auka, eins konar bragskraut, sem þó er ekki skyldubundið nema þeg-
ar um er að ræða sk, sp og st.
Ekki er til einhlít skýring á því hvers vegna reglan um sk, sp og st
varð til. Bent hefur verið á að ákveðin samsvörun er með þessum
klösum í stuðlun og í innrími dróttkvæða9. Jakob Jóhannesson Smári
ræðir um hið nána samband milli s annars vegar og k, p, t hins vegar.
Hann bendir á að frumindógermönsk k, p, t hafi í germönsku orðið
að h, f, þ(ð) nema á eftir s, þar sem þau hafi haldist óbreytt og nefnir
dæmin: lat. cornu : ísl. horn, lat. pater : ísl. faðir og lat. tres : ísl. þrír ann-
ars vegar en hins vegar: lat. piscis : ísl. fiskur, lat. spuo : ísl. spýja, lat. sto
: ísl. standa.10 Þorsteinn G. Indriðason bendir hins vegar á að þessi
sambönd séu það sem kalla megi „öfuga affríkata“ og þau hafi sérstöðu
í íslensku því þetta séu einu samböndin þeirrar tegundar. Hann telur
að ef til vill sé svarið fólgið í því að finna hljóðþátt sem er einkenn-
andi fyrir brageininguna st og sem skilur jafnframt st frá sp og sk.
Þorsteinn bendir á það sem dæmi um hið nána samband hljóðanna
að p, t og k missa fráblásturinn í þessu umhverfi vegna áhrifa frá s.
Það sem gerist er að fráblásturinn færist yfir á s-ið með þáttafærslu.11
2.2 Sl, sm og sn sem gnýstuðlar. Stuðlun við sníkjuhljóð
Í seinni tíð hefur reglan um sk, sp og st að einhverju leyti yfirfærst á
samhljóðasamböndin sl, sm og sn þannig að nú stuðla þau sambönd
ekki hvert við annað né við s. Svo var ekki til forna, samanber eftir-
farandi braglínur eftir Snorra Sturluson:12
Slóð kann sneiðir
seima geima
Á ofanverðri 17. öld stuðlar Hallgrímur Pétursson á annan hátt í
sálminum „Um dauðans óvissan tíma“:13
slyngum þeim sláttumanni
er slær allt hvað fyrir er.
9 Þorgeir Sigurðsson (2001:222).
10 Jakob Jóhannesson Smári (1923:128).
11 Þorsteinn G. Indriðason (1990:16).
12 Snorri Sturluson (1999:30), feitletrun mín, RIA.
13 Hallgrímur Pétursson (1996:202), feitletrun mín, RIA.