Són - 01.01.2005, Blaðsíða 79
LJÓÐSTAFURINN S Í ÍSLENSKUM KVEÐSKAP 79
klasar jafngildisflokk með sj, sv og s + sérhljóða en gnýstuðlar verða
þeir ekki fyrr en þeir standa, hver fyrir sig, í öllum sætum sem ljóð-
stafir.
Um gnýstuðlana sk, sp og st er fátt að segja annað en að
niðurstöður úr athugun á þeim komu ekki á óvart. Klasinn sk kemur
114 sinnum fyrir í stuðlasamböndum, sp 8 sinnum og st 91 sinni.
Lausleg athugun á fjölda orða í Ordbog over det gamle norske sprog
(ljósprent 1954) og Íslenzkri orðabók (1980) bendir til þess að þessar
tölur séu í nokkuð góðu samræmi við fjölda þessara orða í
tungumálinu, þ.e. að á móti hverjum 8–9 orðum sem byrja á sp megi
finna um það bil 110–120 orð sem hafa sk í framstöðu og í kringum
90 sem byrja á st. Klasinn sk kemur ekki fyrir hjá Braga Boddasyni
sem skýrist væntanlega af því hve lítið er til eftir hann. Eftir það finnst
sk í stuðlun hjá öllum skáldunum, mismörg dæmi hjá hverju þeirra.
Flest eru þau hjá Stefáni Ólafssyni, sautján talsins, en fæst hjá Kristjáni
Jónssyni Fjallaskáldi, tvö. Svipuð niðurstaða er með klasann st nema
þar eru dæmin heldur færri og sveiflurnar minni. Það hve klasinn sp
kemur sjaldan fyrir getur skýrst af því að orð sem byrja á sp eru mikl-
um mun færri en þau sem hefjast á sk eða st. Þar sem þessi orð ganga
ekki inn í neinn annan jafngildisflokk verða þau út undan í stuðlun-
inni. Það er athyglisvert að oftast kemur klasinn st fyrir hjá Stefáni
Ólafssyni, alls níu sinnum. Ekki er í sjónmáli nein skýring á því hvers
vegna þessi austfirski klerkur stuðlaði oftar með gnýstuðlum en
önnur skáld. Ef til vill er hér um einskæra tilviljun að ræða.
Ekki er neinn sjáanlegur munur á þessum þremur klösum eftir því
frá hvaða tíma dæmin eru tekin. Gnýstuðlarnir sk, sp og st virðast hafa
haldið hlut sínum í stuðluninni án þess að þar yrðu nokkrar þær
sveiflur sem vert er að veita athygli.
Annað er uppi á teningnum þegar litið er á gnýstuðlana sl, sm og
sn. Þeirra verður ekki vart fyrr en hjá Halli Ögmundssyni þegar
klasinn sm er í öllum sætunum (sjá töflu 1). Eftir það koma þeir fyrir
hjá níu skáldum til viðbótar, alls sextán sinnum. Athyglisvert er að
samböndin sl og sn (e.t.v. sm) koma fyrst fyrir sem gnýstuðlar eftir að
s-stuðlun er hætt. Þetta sést best þegar litið er á töflu 1 og súluritin í
töflu 2 og 3. Athyglisvert er að klasinn sm kemur ekki fyrir nema einu
sinni. Eins og áður hefur verið bent á eru orð sem hafa sm í framstöðu
mjög fá. Lausleg könnun var gerð til að ganga úr skugga um þetta
atriði. Taldir voru í Íslenzkri orðabók (1980) helstu orðstofnar sem hefj-
ast á sl, sm og sn. Niðurstaðan var sú að orðstofnar sem hafa sl í fram-
stöðu reyndust vera um 130, þeir sem hefjast á sn töldust tæplega 120