Són - 01.01.2005, Blaðsíða 9
Yelena Sesselja Helgadóttir (Yershova)
Íslenskar lausavísur og bragfræði-
legar breytingar á 14.–16. öld*
Bragfræðilegar breytingar á tímabilinu frá 1400 og fram að siðskipt-
um, ásamt spurningu um uppruna rímnahátta, sem fylgir þessu tíma-
bili líkt og skugginn, hafa verið efni í óþrjótandi umræðu alla 20. öld.
Umræðan teygir sig einnig yfir á þriðja árþúsund en fyrir skömmu
komu út tvö ólík rit sem bæði snerta breytingar í kveðskap 14.–16.
aldar. Annað er aldamótaritið Поэзия скальдов (Skaldic Poetry) eftir
Elenu Gurevich og Innu Matyushinu, yfirgripsmikil bók sem rekur
sögu dróttkvæðs kveðskapar: bragfræði og setningaskipan, myndmál,
hugmyndir fornmanna um kveðskap og skáldskapargáfu, breytingar
á stökum kveðskapargreinum (lofkvæðum, mansöng, níði og kristi-
legum kveðskap). Síðasti kaflinn fjallar um rímur í ljósi kveðskapar
miðaldaskálda.1 Höfundur hans, Inna Matyushina, tekur meðal ann-
ars dæmi um bragfræðileg líkindi í þessum kveðskapartegundum.2
Hitt er nýleg grein eftir Kristján Árnason, „Ferhend hrynjandi í
fornyrðislagi og ljóðahætti“. Eins og titillinn ber með sér er nálgun
höfundarins fyrst og fremst bragfræðileg. Viðfangsefni hans er ekki
beinlínis uppruni rímnahátta en greinin hefur að geyma ítarlegan
samanburð á hrynjandi edduhátta (fornyrðislags og ljóðaháttar) og
ferhendu seinni tíma.3
* Þessi grein er vaxin upp úr þeirri rannsókn á lausavísum sem liggur til grundvall-
ar meistaraprófsritgerð minni frá febrúar 2003, Rýnt í myrkrið í leit að litlum stjörnum:
Íslenskar lausavísur frá 1400 til 1550. Ég þakka RANNÍS — Rannsóknarnámssjóði
fjárhagslegan stuðning við samningu ritgerðarinnar, Stofnun Árna Magnússonar á
Íslandi veitta aðstöðu en starfsfólki þess og gestum margvíslega aðstoð. Sérstakar
þakkir vil ég færa Guðrúnu Nordal og Kristjáni Árnasyni, leiðbeinendum í rann-
sókn minni, og Kristjáni Eiríkssyni sem las báðar ritgerðir og svaraði spurningum
mínum af stakri þolinmæði.
1 Íslenskar miðaldir eru skilgreindar sem 9.–14. öld í þessari grein.
2 Gurevich, Matyushina (2000:692–694). Hér er þó ekki um að ræða ítarlegan sam-
anburð á bragfræði dróttkvæða og rímna.
3 Kristján Árnason (2003:38–56).