Són - 01.01.2005, Blaðsíða 34
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR34
rímnaskálda í rúnastafaheitum í 25. og 26. erindi í Barngæludikti, og
90. og 91. erindi í Barngælubálki. Útgefanda tókst ekki að ráða nöfnin
þrátt fyrir holla leiðarvísan í Skírnisgrein Páls Eggerts Ólasonar.5 Víst
er að skáldið var lærður maður sem bregður fyrir sig latínu þegar
hann ræður stúlkunni að láta ekki ‚auricularis‘, þ.e. umboðsmann eða
ráðsmann, safna fyrir sig vaðmálsskuldum (55. erindi Barngælubálks).
Í kvæðinu er rakinn verkahringur íslenskrar húsfreyju sem á bónda
og börn, ræður híbýlum og hefir yfir verkafólki að segja, á skuldum
að lúka, getur vikið góðu að aumum og veitt gestum beina; á þess
kost að vera í förum og sækja veislur, hljóta hylli höfðingja og þokka
alþýðu. Ljóðmælandi hefir leitast við að kenna meynni að skilja og
nema skáldamál. Hann ávarpar hana með orðum einsog ‚sprakki‘
‚refskorð‘ ‚lindin mjófa‘ ‚sætan fróma‘ ‚þorngrund‘ ‚hoskust meyja‘
‚hoskust vífa‘ ‚dregla nauma‘. Menn nefnir skáldið ‚gunna lið‘ ‚rekka
lið‘ ‚bragna‘ ‚seggi‘ ‚skatna‘ ‚kappa‘ ‚drótt‘ ‚ýta‘. Drottinn er nefndur
‚himnanna buðlungur hæðstur‘ ‚tiggi himins‘; deilendur kallaðir
‚vargar‘ og fiskar ‚ægisbúar.‘
Ekki verður hér gruflað útí fyrirmyndir eða hliðstæður þessa
kvæðis nær eða fjær, en minna má á að barngælum liðinna alda
bregður allvíða fyrir í íslenskum ritum. Einna skyldast því kvæði sem
hér er prentað, en almennara að speki, er seinni hluti „Ljúflingsljóða“
sem svipar til „Hávamála“, eru ort til drengs, varðveitt nokkuð víða
í handritum.6 Í Kvæðabók úr Vigur frá seinni hluta 17. aldar eru
„Barngælur með ljúflingslag“, kveðnar við Tómas, dótturson Ólafs
Jónssonar á Söndum, þær eru ennfremur í Kvæðabók Ólafs (ÍB 70
4to). Í Kvæðabók úr Vigur er annar Barngælubálkur sem hefst á líkan
hátt og sá sem hér er prentaður: „Óð skal byrja / yfir ungu barni /
með nýju ári / í nafni Jesú.“ Þetta kvæði er eftir ókunnan höfund, ort
til hnátu sem eftir kvæðinu hefir borið nafn nú óþekktrar ömmu sinn-
ar.“7 Séra Jón Bjarnason í Presthólum kvað „Heilræðarímu“ til Illuga
sonar síns sem var í bernsku um 1600.8 Bjarni Gissurarson, prestur í
Þingmúla, kvað hlýleg kvæði til barna einsog „Vögguljóð“ Einars
5 Páll Eggert Ólason. „Fólgin nöfn í rímum.“ Skírnir 1915, 118–132; sbr. Jón
Þorkelsson. Om Digtningen på Island i det 15. og 16. Århundrede. Kh. 1888, 105–106.
6 Fyrst prentuð í: Íslenzk ævintýri. Rvk. 1852, 103–105.
7 Kvæðabók úr Vigur. AM 148 8vo. Ljósprentaður texti. (Íslenzk rit síðari alda. 2.
flokkur. Ljósprentanir 1. bindi A). Kh. 1955, bl. 43r–44v, 232r–233v; Jón
Helgason. Kvæðabók úr Vigur AM 148 8vo. Inngangur. (Íslenzk rit síðari alda 2.
flokkur. Ljósprentanir. 1. bindi B). Kh. 1955, 39, 54–55.
8 Blanda II (Sögurit XVII). Rvk. 1921–1923, 75–89.