Són - 01.01.2005, Blaðsíða 54
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR54
settur skýr punktur ýmist fyrir miðju bókstafa ellegar í línu og hvert
nýtt erindi hefst á fallega dregnum upphafsstaf. Erindin eru ótölusett
í handriti. Í prentun er hvert vísuorð sett sér í línu og erindin tölusett
til hægðarauka.
Á bl. 7 er skinnlag rifið og fremstu bókstafir í fimm efstu línunum
bl. 7r horfnir sem og seinustu bókstafir í fimm efstu línum á bl. 7v. Í
útgáfunni er reynt að fylla í eyður eins og vit nær til; ágiskanir og
leiðréttingar eru stjörnumerktar og gerð nánari grein fyrir þeim í
skýringum.
3. Uppskrift Barngælubálks í JS 531 4to
Jón Sigurðsson forseti safnaði býsnum af kvæðum í handritum og
uppskrifaði mikið sjálfur, ætlaði úrval til útgáfu fyrir almenning og
kom mörgu í verk. Eitt kvæðahandrit í safni hans, nú á Handritadeild
Landsbókasafns — Háskólabókasafns, ber markið JS 531 4to, það er
þjóðkvæðasafn og voru sum kvæðin prentuð í Andvara.19 Fremst í
handritinu fer Skaufhalabálkur eða Refsbálkur, en í aftasta hlutanum eru
uppskriftir af Áradalsbrag sem Jón hafði búið til prentunar í Andvara en
ekki varð af, bragurinn var fyrst prentaður í Huld 1894.20 Næst á eftir
uppskriftum Ljúflingsljóða í þessu handriti er á sérstöku tólfblaða kveri
uppskrift Barngælubálks og Katekismusvísna. Á hægri spássíu við upphaf
Barngælubálks er skrifað með sömu hendi og meginmál: „Sec(undum)
Membr: Biblioth. A M. N. 718 in 4. videtur exarata paulo ante
Reform“ [þ. e.: Eftir skinnhandriti (í) Bókasafni Árna Magnússonar, AM nr.
718 í 4to, virðist skrifað litlu fyrir siðskipti ]. Á spássíu við upphaf
Katekismusvísna stendur „Sec(undum) Membr. Biblioth. A M No
718 4to“ [þ. e.: Eftir skinnhandriti (í) Bókasafni Árna Magnússonar, AM
nr. 718 í 4to]. Í handritinu sem nú er undir markinu AM 718 4to
eru kvæðauppskriftir Jóns Gissurarsonar á Núpi við Dýrafjörð en
hvorki eru þar Barngælubálkur né Katekismusvísur. Ljóst er að uppskrift
Barngælubálks í JS 531 4to er gerð beint eftir uppskriftinni í AM 720
b 4to og jafnframt hefir skrifarinn haft hop af brotinu í AM 720 a IX
4to. Af þessu er helst að ráða að kvæðahandritið sem nú er undir
markinu AM 720 b 4to hafi einhvern tíma legið með því kvæðahand-
riti sem nú er merkt AM 718 4to.
19 „Titlíngskvæði“, Andvari, 1. ár. Kh. 1874, 194–196; „Spekifuglinn“, Andvari 2. ár.
Kh. 1875, 143–146; „Einsetumannskvæði og Krummakvæði“, Andvari, 3. ár. Kh.
1876, 153–163.
20 Einar G. Pétursson. Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. Rvk. 1998, 137–138.