Són - 01.01.2005, Blaðsíða 123
ÞANKABROT UM LJÓÐBYLTINGAR 123
ekki séð að nein þörf sé fyrir hugtakið, svo óljóst sem það er og
markað af mótsagnakenndum og þrengjandi skilgreiningum. Ég kýs
því heldur að nota orðið nútímaljóð — í víðri merkingu — um þær
sundurleitu tegundir skáldskapar sem litið hafa dagsins ljós eftir ljóð-
byltingarnar á 19. og 20. öld og eiga það sameiginlegt, þótt sundur-
leitar séu, að fara á margan hátt í bága við ljóðhefðir sem áður voru
ríkjandi. Þetta getur tæplega kallast skilgreining og er þar af leiðandi
lítt fallið til útilokunar, enda er það ekki tilgangur minn eins og oft
virðist vera þegar menn tala um módernisma. Önnur ástæða til að
sneiða hjá hugtakinu er að endingarnar -ismi og -istar gefa ósjálfrátt til
kynna að um sé að ræða hreyfingu og þátttakendur í hreyfingu.
Staðreyndin er hinsvegar sú að öll skáld sem hafa lagt mikið af mörk-
um til nútímaljóðlistar eru einfarar, í þeim skilningi að þau eru ein-
stök og ólík öðrum skáldum. Það gildir jafnt um Paul Éluard, sem þó
var lengi virkur súrrealisti, René Char, sem tengdist hreyfingunni
skamma hríð, og ‚útlagann‘ Saint-John Perse. Það gildir um Yeats,
Pound og Eliot, um Rilke, Benn og Brecht, um Lorca og Neruda.
Aldrei verður nógsamlega ítrekað að ljóðlist nútímans er ekki eins-
leit heldur margvísleg. Hæpið er því — og hlutavilla — að dubba ein-
stakar skáldskaparaðferðir upp í einkaaðferð nútímaljóða eða módern-
ismans, með ákveðnum greini. Ég hef minnst á þá skoðun að myndræn
tjáning og myndhverfingar séu hið sanna andlit hans. Aðrir hafa þóst
sjá helsta kennimark hans í þeirri aðferð að sleppa úr tengingum í
framvindu ljóðs og eftirláta lesandanum að tengja.108 Í bæði skiptin eru
tiltekin formleg einkenni einangruð og gerð að inntaki stefnunnar. Í
bréfi sem Sigfús Daðason skrifaði Hannesi Sigfússyni frá París vorið
1959 koma fram mjög ólíkar skoðanir, og að mínum dómi raunhæfari:
[N]útímaljóð er vítt hugtak og opið. Það lýtur ekki einhverju lög-
máli sem er ákvarðað fyrirfram. Það er alltaf óákvarðað fyrir
skáldinu. Þessvegna, minn kæri, ef þú yrkir á morgun ljóð sem
tjáir fyllilega í hugsun og formi vanda okkar tíma, þá hefurðu
ort „nútímaljóð“ enda þótt það kunni að stríða í einu og öllu
gegn þeim lögmálum sem þú hefur játað hingaðtil [leturbreyt-
ingar Sigfúsar].109
108 Sbr. David Perkins (1976:309). — Sú aðferð (collage, montage) er reyndar meðal
helstu nýjunga nútímalistar og stingur að mínum dómi ekki síður en myndmál
nútímaljóða í stúf við eldri ljóðlist.
109 Sigfús Daðason (2000:78–81).