Són - 01.01.2005, Blaðsíða 91
ÞANKABROT UM LJÓÐBYLTINGAR 91
analógía, sífelld og reglubundin endurtekning hliðstæðra eininga.7
Þetta gildir vitaskuld einkum um ljóð í bundnu máli, en allt frá
upphafi vestrænna bókmennta hjá Forngrikkjum og fram á seinni-
hluta 19. aldar voru ljóð ekki ljóð nema þau væru bundin á marg-
víslegan máta, og orðalagið ‚ljóð í bundnu máli‘ hefði verið jafn
óhugsandi fram yfir miðja tuttugustu öld á Íslandi og ‚skáldsaga í
óbundnu máli‘.
Sá sem sendir frá sér boð þarf að velja orð úr safni tungumálsins
og tengja þau saman í setningar. Skáld sem yrkir bundið velur orðin
og raðar þeim saman með tilliti til þess sem Jakobson kallaði jafn-
gildisreglu, en hún birtist í því að samskonar eða jafngildar einingar eru
endurteknar aftur og aftur eftir ákveðnum reglum. Skoðum nú
„Vorsól“ í þessu ljósi. Kvæðið skiptist í fimm erindi sem öll eru af
sama toga, og hvert erindi aftur í sex samskonar ljóðlínur. Línurnar
(„Svanir fljúga hratt til heiða, / huga minn til fjalla seiða“ o.s.frv.) eru
skipaðar jöfnum bragliðum þar sem þung og létt atkvæði skiptast á,
og síðustu bragliðir hverrar línu mynda hljóðlíkingu við aðra bragliði
í sömu stöðu (heiða, seiða, greiða; lönd, hönd o.s.frv.). Þá eru
ljóðlínur bundnar saman á þann hátt að sama hljóð er endurtekið í
upphafi þriggja bragliða (hratt til, heiða, huga; blíða, bjarta, barstu), en
það fyrirbæri (ljóðstafasetning eða stuðlun) lifir núorðið einungis í
íslenskri ljóðlist. Kvæðið „Vorsól“ er með öðrum orðum samræmis-
fullur vefur eininga sem mynda hliðstæður af margvíslegu tagi, í því
er jafngildisreglan ljóslega að verki. Nokkuð öðru máli gegnir um
„Prufrock“ Eliots; þar er samræmið hvergi nærri hið sama. Þar er að
vísu allvíða rím og nokkrar alveg reglulegar ljóðlínur, en yfirleitt eru
þær misjafnar að lengd og flestar eru ekki háttbundnar á þann veg að
í þeim skiptist á með reglubundnum hætti þung og létt atkvæði. Í stað
háttbundinnar hrynjandi kemur setningahrynjandi sem nálgast veru-
lega talað mál. Samt hefur hljóðmynd „Prufrocks“ ýmis einkenni
bundins máls; auk rímsins má til dæmis benda á hljóðlíkinguna í eftir-
farandi línum:
7 Hér er einkum vísað til greinar Jakobsons „Linguistics and poetics“ (upphaflega
fyrirlestur fluttur 1958) sem er t.d. að finna hjá David Lodge (1988:32–61). Einnig
er góð umfjöllun eftir Þóri Óskarsson um Jakobson í Íslenskri stílfræði (1994:51–53).
— Jakobson benti á að ‚skáldleg virkni‘ máls sem hann kallaði svo (e. poetic function,
þýð. Þóris Óskarssonar) birtist ekki bara í skáldverkum. Frekari dæmi eru til að
mynda stuðlun í málsháttum og pólitískum slagorðum: Kátt er í koti þá karl er ekki
heima. Allt er betra en íhaldið — eða rím í orðasamböndum og málsháttum: Að
hrökkva eða stökkva. Svo er margt sinnið sem skinnið.