Són - 01.01.2005, Blaðsíða 128
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON128
á eftir í menningarlegum efnum, og sú ljóðlist sem fyrir var dugði
ungu skáldunum ekki til að fjalla um þau nýju yrkisefni sem nú
leituðu á: nýja vitund um heiminn og stöðu mannsins í heiminum. Til
mikils var því að vinna að bæta þetta upp.
Árið 1989 skrifaði Gunnar Harðarson um „kaflaskilin í íslenskri nú-
tímaljóðlist“ upp úr stríðslokum og þótti heitið ‚formbylting‘ að
vonum ófullnægjandi um þær breytingar, að minnsta kosti sé tekið mið
af þróuninni allt fram á sjöunda áratug.119 Ef halda eigi því hugtaki vill
hann bæta við tveimur: ‚málbyltingu‘ og ‚myndbyltingu‘. Um atóm-
skáldin svokölluðu skrifar hann að þeir hafi að nokkru leyti verið
„varðveislumenn íslenskrar skáldskaparhefðar“,120 og sem dæmi þess
nefnir hann viðhorf þeirra til tungumáls og málvöndunar. Ég tel að
vísu að hann vanmeti stórlega róttækni þeirra; þeir gerðu mun meira
en „sprengja af [hefðinni] staðnað ytra form“;121 það var ekki síður
innri gerð ljóða þeirra Hannesar Sigfússonar, Stefáns Harðar og
Sigfúsar Daðasonar sem fór í bága við hefðina og til marks um það er
að margir fundu ljóðum þeirra einkum til foráttu (rétt eins og Tímanum
og vatninu) að þau væru ‚óskiljanleg‘. Þeir gengu bersýnilega mun
lengra í nýrri ljóðhugsun en þorri ljóðalesenda var tilbúinn að fylgja
þeim. Snorri Hjartarson og seinna Hannes Pétursson voru hinsvegar í
það nánum tengslum við ljóðhefðina að þeim var tekið fagnandi.
Nú fór því reyndar fjarri að þessi afstaða til tungumálsins — vand-
að málfar, þó laust við ýmis einkenni eldra ljóðmáls í orðavali og setn-
ingagerð — styngi í stúf við nútímaljóð annarstaðar á fyrrihluta
aldarinnar. Þetta var í megindráttum afstaða enskumælandi skálda á
borð við Yeats, Pound, Eliot, Auden, Williams, Stevens. Með öðrum
orðum helstu skáldanna. Sama gildir um þau frönsku skáld sem
Sigfús Daðason tók einkum mið af: Éluard, Guillevic, Char, Perse.
Hér skiptir máli að þetta var afstaða allra hinna þriggja erlendu læri-
meistara Sigfúsar á fimmta áratugnum; klassísk áhrif einkenndu víða
ljóðstíl Eliots og Rilke hafði orðið fyrir áhrifum af frönskum sym-
bólistum. Annarri málstefnu fylgdu að sjálfsögðu dadaistarnir og
einnig sumir súrrealistar og þýskir expressjónistar, að ekki sé minnst
119 Gunnar Harðarson (1989:108–18).
120 Gunnar Harðarson (1989:110).
121 Gunnar Harðarson (1989:110).