Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Síða 9
7
Háskólar, kreppa og vísindi
Guðmundur Heiðar Frímannsson
Hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009, 7–13
Það er kunnara en frá þurfi að segja að
kreppa hefur gengið yfir íslenskt samfélag
á þessu ári og mun halda áfram enn um
sinn. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist saman og
samdráttur verður í útgjöldum á þessu ári og
þeim næstu. Langstærstur hluti menntastofnana
er í opinberum rekstri og þær sem teljast
vera í einkarekstri sækja stærstan hluta tekna
sinna til ríkis eða sveitarfélaga. Framtíð
menntastofnana í landinu er að mótast þessa
mánuðina og alls ekki ljóst hvernig hún kemur
til með að verða. Ég hyggst í þessum pistli fara
fáeinum orðum um möguleg áhrif samdráttar
ríkisútgjalda á starfsemi íslenskra háskóla,
kennslu og rannsóknir, og hver gætu og/eða
ættu að vera viðbrögð háskólanna við þessum
nýju þjóðfélagsaðstæðum.
Háskólastigið hefur þróast mjög hratt á
Íslandi. Fyrstu almennu lögin um háskóla voru
samþykkt árið 1997 en fram að því höfðu gilt
sérlög um hvern háskóla sem þá starfaði en þeir
voru þrír: Háskóli Íslands, Kennaraháskólinn
og Háskólinn á Akureyri. Árið 1997 voru
tæplega 7.000 nemendur í íslenskum háskólum
(Jónasson 2004:147), árið 2001 voru þeir
12.094 en árið 2008 17.738 (Hagstofa Íslands
2009). Þetta er meira en tvöföldun á tólf árum
sem er mjög mikil fjölgun. Fjölgunin hefur
haldið áfram á þessu ári, meðal annars vegna
þeirra efnahagsþrenginga sem gengið hafa yfir.
Fólk sér sér einfaldlega hag í að nota tímann í
nám þegar þrengir að á vinnumarkaði.
En það eru aðrar breytingar á háskóla-
stiginu sem skipta ekki síður máli en fjölgun
nemenda: Það er fjölgun háskóla. Þeir voru
þrír árið 1997, allir ríkisháskólar, en nú
eru þeir alls sjö: Háskóli Íslands sem hefur
sameinast Kennaraháskólanum, Háskólinn á
Akureyri, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri,
Háskólinn á Hólum, Viðskiptaháskólinn
á Bifröst, Listaháskólinn og Háskólinn í
Reykjavík. Tveir þessara háskóla eru einka-
skólar, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og
Háskólinn í Reykjavík. Listaháskólinn er
sjálfseignarstofnun. Landbúnaðarháskólinn á
Hvanneyri og Háskólinn á Hólum heyrðu
undir landbúnaðarráðuneytið þar til árið 2008
en heyra nú undir menntamálaráðuneytið. Til
viðbótar þessu eru háskólasetur á nokkrum
stöðum á landinu sem teljast á háskólastigi:
á Ísafirði, Egilsstöðum og víðar. Námsleiðum
hefur fjölgað mikið á þessum tíma og bæði
hefur fjölbreytni aukist og boðið er upp á
sams konar nám í fleiri en einum skóla;
viðskiptafræði er til dæmis boðin í fjórum
háskólum og lögfræði einnig.
Þessi vöxtur virðist vera afleiðing laga sem
sett voru árið 1997 en þau voru endurskoðuð
árið 2006 (Lög um háskóla nr. 63/2006)
og í kjölfarið voru sett lög um opinbera
háskóla árið 2008 (Lög um opinbera háskóla
nr. 85/2008). Það er þó óvarlegt að fullyrða
eitthvað um orsakasamhengið því að verið
gæti að þessi hraði vöxtur háskólanáms hefði
PiStiLLinn