Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 29
nemanda með alvarlega leshömlun kennt
að greina málhljóð og lesa1 með beinum
fyrirmælum2 og hnitmiðaðri færniþjálfun3
Guðríður Adda Ragnarsdóttir
Atferlisgreiningu og kennsluráðgjöf
Ellefu ára gamalli stúlku sem greind var með alvarlega leshömlun, dyslexíu, var kennt að lesa
með samtengdri hljóðaaðferð eftir ýmsum skynjunar- og verkleiðum. Beitt var kennslutækni
beinna fyrirmæla (DI) við frumkennslu og hnitmiðaðrar færniþjálfunar (PT) við hröðunarnám.
Hraðflettispil (SAFMEDS) voru notuð til að þjálfa aðgreiningu. Færni stúlkunnar í að umskrá
málhljóð í bókstafi og bókstafi í málhljóð ásamt hljóðblöndun var kennd og þjálfuð rækilega í
60 klukkustundir. Lestrarhraðinn var skráður jafnóðum sem tíðni á stöðluð hröðunarkort. Gögnin
sýna að rækileg hljóðræn þjálfun skilar sér í færni við samsett verkefni − lestur orða og samfelldra
texta sem byggjast á sömu grundvallaratriðum, þ.e. málhljóðum og sambandi þeirra við bókstafi.
Niðurstöðurnar eru í góðu samræmi við fyrri niðurstöður höfundar og annarra sem beita sömu
kennslutækni. Þær eru ræddar í samhengi við nýlegar heilarannsóknir sem gerðar hafa verið með
starfrænni segulómun (fMRI), og sýna að jafnframt því að auka lesfærni leshamlaðra breytir
rækileg hljóðræn þjálfun gerð og virkni lessvæða í heila þeirra.
Fjallað verður um lestrarkennslu ellefu ára
gamallar stúlku sem var illa læs og hafði fengið
greiningu um alvarlega leshömlun – dyslexíu4.
Dyslexía virðist liggja í ættum og eru ýmsar
vísbendingar um að hún sé ásköpuð (Gabrieli,
2009). Nýjar rannsóknir með starfrænni
segulómun (e. functional magnetic resonance
imaging, fMRI) sýna að hægt er að greina
formgerð tiltekinna svæða í heila sem tengjast
lestri, og breytingar á henni. Þær sýna einnig
að önnur svæði virkjast hjá leshömluðum en
þeim sem eru það ekki, og að hægt er að greina
hvaða svæði eru virkust þegar einstaklingurinn
les. Síðast en ekki síst sýna þessar rannsóknir
27Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009, bls. 27–50
Hagnýtt gildi: Greinin er framlag höfundar til þess að kennsla þróist í átt að þroskuðum
vísindum með samræmdum viðmiðum og staðfestingu almennra lögmála. Kennslutækni þar sem
beitt er beinum fyrirmælum og hnitmiðaði færniþjálfun er raunvíst dæmi um stjórn á frumbreytu
– kennslu, og áhrif hennar á fylgibreytu – námsárangur. Gengið er út frá þeirri forsendu að þeir
sem bera ábyrgð á menntun kennara og stefnumótun í menntamálum byggi ákvarðanir sínar á
raunprófuðum gögnum.
1 Kennslan var þjónusta veitt samkvæmt beiðni foreldra nemandans. Hún var greidd af þeim og viðkomandi sveitarfélagi.
Höfundur þakkar nemanda og foreldrum nána og góða samvinnu og bæjarstjóra áhuga og skilning.
2 Direct Instruction hefur verið þýtt á íslensku sem bein fyrirmæli eða bein kennsla. Hér verður talað um bein
fyrirmæli, þótt höfundur hallist að því að hvorug þýðingin nái merkingunni nægilega vel. Spurning er hvort víkja eigi frá
bókstaflegri þýðingu og tala þess í stað um stýrða kennslu.
3 Borghildur Sigurðardóttir, kennari í Réttarholtsskóla, benti á orðið „hröðunarnám“ í merkingunni „hnitmiðuð
færniþjálfun“. Höfundur þakkar munnlega ábendingu og mun nota bæði hugtökin eftir samhengi, ásamt Precision
Teaching og PT, þegar við á.
4 Hugtökin alvarleg leshömlun og dyslexía verða notuð jöfnum höndum í greininni. Ekki verður fjallað um nánari
skilgreiningar eða einkenni undirflokka hennar.