Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Page 60
58
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
menntaskólum og haustið 1963 fékk hann
námsorlof sem hann notaði til að kynna sér
nýjar stefnur í Bandaríkjunum. Umræður hófust
í Menntaskólanum í Reykjavík um alþjóðlega
strauma breytinga á stærðfræðikennslu.
Hugmyndir um breytingar snerust upphaflega
um að búa nemendur betur en áður undir
háskólanám og vörðuðu því menntaskólana og
landsprófið mest í fyrstu.
Í ársbyrjun 1966 ritaði Halldór Elíasson
grein í Menntamál þar sem segir m.a.:
„Í núverandi námsbókum er nokkuð
mikið um slæmar reikningslistir. ...
Hlutfallareikningurinn er bein móðgun
við heilbrigða skynsemi í því formi, sem
hann er kenndur. ... Hins vegar tryggir
notkun þríliðunnar svo til, að nemendur
hafa ekki hugmynd um, hvað þeir eru að
gera og hafa enga aðstöðu til að dæma um,
hvort raunverulega sé rétt að nota þríliðu.
... Það þarf alltaf einhverja þekkingu til
að geta reiknað dæmi, þekkingu á þeim
hugtökum, sem þar koma fyrir. Það, sem
hér vantar, er kennsla í meðferð og notkun
hugtaka. Til dæmis hugtök eins og verð,
lengd, vextir o.frv. á að kenna að nota
í reikningi. Með því er hægt að losna
við þríliðuna og komast að kjarna þess,
sem felst í hugtakinu hlutfallareikningur.“
(Halldór Elíasson, 1966, bls. 96–97).
Þríliða hefur ekki verið nefnd í íslenskum
kennslubókum síðan enda var mikilla breytinga
skammt að bíða. Halldór, sem kenndi þá við
Menntaskólann í Reykjavík og túlkaði ef til
vill umræður á kennarastofu Menntaskólans,
sagði líka:
„Ég tel, að ekki sé rétt, að nemendur séu
prófaðir í námsefni, sem engin ástæða er
til að þeir kunni. Ef þetta sjónarmið væri
viðurkennt, þá væru t.d. próf í lesnum
dæmum ekki tíðkuð. Það er algjörlega
einskis virði að nemendur læri þessi
dæmi utan að. Lakari nemendur freistast
einmitt til þess, en ættu að verja tíma
sínum á skynsamlegri hátt. Önnur ástæða
til þess, að slík próf eru óæskileg, er
sú, að þau hafa mjög neikvæð áhrif á
kennsluaðferðir. Landsprófskennslan
hefur verið átakanlegt dæmi um þetta.“
(Halldór Elíasson, 1966, bls. 97–98).
Steinþór Guðmundsson var umsjónarmaður
landsprófsins í stærðfræði árin 1946–1962 en
Björn Bjarnason, kennari við Menntaskólann
í Reykjavík, tók þá við samningu stærðfræði-
prófsins og umsjón. Árið 1966 var stærð-
fræðiprófinu breytt og það var stytt. Að hluta
til var það af hagkvæmnisástæðum. Áður höfðu
verið tvö próf í ólesinni stærðfræði, samtals 4 ½
klst., og þriggja tíma próf í lesinni stærðfræði
var haldreipi margra. Þegar prófþegum fjölgaði
verulega um miðjan sjöunda áratuginn varð
yfirferð á öllum úrlausnum á öllu landinu
einum manni ofviða, en nefndarmenn voru
prófdómarar í Reykjavík og þeir endurmátu
úrlausnir utan Reykjavíkur (Bjarni Vilhjálms-
son, 1952). Meginbreytingin 1966 var þó sú
að lesin stærðfræði var lögð niður og í stað
hennar komu stutt dæmi um grundvallaratriði í
algebru, sem auðvelt var að meta. Áður höfðu
verið sex til sjö dæmi í hverjum prófhluta, löng
dæmi og samsett, oft snilldarlega samin, en
flókin í mati. Þau voru þó metin með sérstökum
hætti að sögn Haraldar Steinþórssonar (2003),
sonar Steinþórs Guðmundssonar. Þannig voru
fyrstu skref metin tiltölulega hátt, en matið varð
strangara eftir því sem lengra varð komist með
hvert dæmi.
Prófið þróaðist síðan út í safn aragrúa
smáatriða, bæði í stærðfræði og öðrum náms-
greinum (Matthías Jónasson, 1968). Álitamál
er hvort sú þróun hafi orðið til að bæta viðhorf
kennara og nemenda til stærðfræðinnar. En
þá var hin svonefnda nýja stærðfræði með
mengjafræði einnig að koma til sögunnar.
Var fyrst gerð tilraun með námsefni af því
tagi til landsprófs í nokkrum skólum veturinn
1966–1967. Drög að námskrá landsprófsdeilda
gagnfræðaskólanna voru loks tekin saman
árið 1968 (Andri Ísaksson (ritstjóri), 1968)
að tilhlutan Skólarannsóknadeildar Mennta-
málaráðuneytisins sem var sett á stofn sama
ár. Má ætla að umsjónarmenn námsgreinanna
hafi samið hver sinn hluta, Björn Bjarnason í
tilviki stærðfræðinnar. Var námskráin skref í
þá átt að losa kennsluna úr viðjum einstakra
námsbóka. Námskráin í stærðfræði bar
sterk einkenni nýju alþjóðlegu stefnunnar í
Kristín Bjarnadóttir