Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 133
131
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
sáttur nema hann fengi að njóta þess sem hugur
hans stæði til. Hver og einn verði að vera
trúr sjálfum sér og fá tækifæri til að þroska
hæfileika sína. Allir þarfnist þess að vera sýnd
umhyggja, að fá jákvæð viðbrögð við gerðum
sínum (Noddings, 2002). Sroufe (1995) telur,
líkt og Noddings, umhyggju byggjast á nánum
tengslum fullorðins og barns. Sroufe byggir
niðurstöður sínar á langtímarannsóknum,
sem sýna fram á að tengslin sem myndast á
fyrstu æviárum einstaklingsins eru grunnurinn
að tilfinningaþroska hans og sjálfsmynd.
Niðurstöður hans sýna að sú umhyggja
sem einstaklingurinn nýtur fyrstu æviárin,
stuðningur og trú hins fullorðna á getu barnsins,
er mikilvæg fyrir það sem síðar kemur.
Nýleg langtímarannsókn á áhrifum leik-
skóladvalar á vitrænan og félagslegan þroska
barna sýnir að það sem skiptir máli er gæði
umhyggjunnar og samskiptanna (Bornstein,
Hahn, Gist og Haynes, 2006). Því er haldið
fram að það sem barn lærir fyrir þriggja ára
aldur, hvort sem það man það eða ekki, hafi
áhrif á þroska þess síðar. Félagsþroski byrji
þannig að byggjast upp fyrir þriggja ára aldur.
Því sé fagleg færni leikskólakennara í að
aðstoða börn við að læra af upplifunum sínum
mikilvæg (Manning-Morton og Thorp, 2003;
Goldschmied og Jackson, 2004; Johannson,
2001).
Sigríður Halldórsdóttir (1989) telur að
í faglegri umhyggju felist fagleg færni og
hlýja þar sem virðing fyrir skjólstæðingnum
skipti höfuðmáli. Þótt Sigríður sé að fjalla
um umhyggju út frá sjónarhorni sjúklinga á
skilgreining hennar alveg jafnvel við innan
skólans þar sem virðing fyrir einstaklingnum
ætti að vera í forgrunni. Stig Broström (2003)
telur umhyggju fela í sér athafnir, tilfinningar,
hugsun og viðhorf. Í sama streng tekur
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2007) sem telur
að í umhyggju fléttist saman þekking, viðhorf,
tilfinningar og leikni.
Sigrún Aðalbjarnardóttir (2007) fjallar um
umhyggju sem gildi og umhyggjusemi sem
dygð. Samkvæmt því er umhyggja viðhorf en
umhyggjusemi eiginleiki sem birtast í orðum
og athöfnum fólks. Í umhyggju felst að vera
annt um „líðan, velferð og framtíðarhag“
annarra (bls. 75). Umhyggja kennara getur
birst annars vegar í því að kennari sýni barni
„hlýju og hjálpsemi“ þ.e. að honum sé annt
um að barninu líði vel. Hins vegar getur
umhyggja kennarans fyrir velferð barnsins
birst sem vilji hans til að „efla margvíslegan
þroska“ barnsins og láta það „finna til sín“
(bls. 79). Hugmyndir Sigrúnar eru samhljóða
hugmyndum Noddings (2002) og Sroufe
(1995), og undirstrika mikilvægi umhyggju
fyrir félags- og tilfinningaþroska.
Að mati Elvu Önundardóttur o.fl. (2006)
er hugtakið umhyggja regnhlífarhugtak
sem nær yfir alla þætti í starfi leikskóla þar
sem leikskólakennarar leitast við að skapa
umhyggjusamt og þroskavænlegt námsum-
hverfi og fjölbreytt námstækifæri. Þær líta á
umönnun sem undirhugtak umhyggju í þeim
tilvikum þar sem fullorðinn annast barn sem
hann er í nánum tengslum við. Þær virðast ekki
gera þann greinarmun að umhyggja sé gildi en
umönnun tæknileg úrlausn.
Umhyggja leikskólakennarans birtist m.a.
í viðhorfi hans og sýn til barna og barnæsku.
Umhyggjusamur leikskólakennari veitir hverju
barni athygli og mætir þörfum þess, m.a.
með það í huga að leiða það áfram í námi.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2007) talar um
tvenns konar birtingarmyndir umhyggjusama
kennarans, annars vegar móðurlega umhyggju
þar sem vinnubrögð kennarans einkennast
af því að halda vel utan um skjólstæðinga
sína og hins vegar prestlega umhyggju (e.
pastoral care) sem felst í umhyggju fyrir
sálinni og vilja til að hafa áhrif til góðs
fyrir framtíð skjólstæðingsins. Hvort heldur
sem er þá eru líklega flestir sammála því að
umhyggja kennarans ræður miklu um það
hvort og hvernig barnið nær að tileinka sér
þekkingu og færni (Sroufe, 1995; Broström,
2003; Noddings, 2005; Smith, 2004). Sroufe
(1995) álítur að umhyggjusöm samskipti barns
og fullorðins séu forsenda þess að barn geti
tileinkað sér nýjungar.
Peter Westmark (2002) telur að umhyggja
„Blítt bros og hlýtt faðmlag“