Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Síða 142
140
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
temji sér vinnubrögð sem geri þeim kleift að
rækta þennan þátt starfsins.
Umhyggja felst í því að veita hverjum og
einum þann stuðning sem hann þarfnast til að
vaxa og dafna, umhyggja er mikilvægasti þáttur
starfsins og snertir bæði börn og fullorðna.
Börn kalla mismikið á athygli hins fullorðna,
ekki má gera ráð fyrir að þó að barn uni sér
vel þurfi það ekki á manni að halda. Noddings
(2003) heldur því fram að allir þurfi að finna
að fyrir þeim sé borin umhyggja en umhyggjan
breytist eftir því sem einstaklingurinn eldist
og þroskist. Allir þurfi umhyggju sem felst í
jákvæðum viðbrögðum gagnvart þeim, hver
og einn á rétt á að honum sé sýnd virðing eins
og hann er. Í rýnihópi Fjalls kom fram að til
þess að manni liði vel, hvort sem um væri að
ræða barn eða fullorðinn, þyrfti hann að finna
að það væri borin umhyggja fyrir honum, að
hann skipti máli. Westmark (2002) álítur að
umhyggjusemi hafi áhrif á alla í leikskólanum,
bæði börn og fullorðna, það sýni sig m.a. í því
að þar sem umhyggja er í hávegum höfð verði
samskipti opnari og jákvæðari. Samskiptin
einkennist þannig af viðurkenningu.
Agi og rammi um starf leikskólans er
sívinsælt umræðuefni hvar sem starfsfólk
leikskóla kemur saman. Þar eru hugtökin agi
og umhyggja gjarnan nátengd. Þetta sjónarhorn
birtist í svörum sumra viðmælenda minna, sem
telja umhyggju fyrir barninu felast í rammanum
og reglunum sem gilda í leikskólanum og
samfélaginu og því hvernig þeim er framfylgt.
Þær telja það veita barni öryggi að þekkja
mörkin og afleiðingar þess að fara út fyrir
rammann. Fram kom að ef barn bryti reglu
eða færi yfir gildandi mörk þyrfti að taka á því
af festu, en skoða bæri brot og afleiðingar í
samhengi. Hér er því ekki hafnað að rammi og
reglur skipti miklu máli. Hins vegar má velta
fyrir sér hvort þessi mikla áhersla á rammann
og viðurlögin bendi ekki að einhverju leyti til
vélrænna viðhorfa. Aðrir bentu á að barn sem
upplifir umhyggju af hálfu leikskólakennarans
hlýtur að treysta honum. Einnig kom fram
að innan rammans þyrfti að vera ákveðinn
sveigjanleiki. Það þýðir að ekki dugi að setja
alla undir sama hatt, meta þurfi kröfur til
barnanna út frá aðstæðum og út frá þeim sem í
hlut á hverju sinni.
Viðmælendur mínir telja að umhyggja á
fyrstu árum barns sé undirstaða velgengni
síðar meir, og hafi áhrif á tilfinninga- og
félagsþroska barnsins síðar á ævinni og telja
gildi hennar því ótvírætt. Þetta er í samræmi
við það sem langtímarannsóknir, sem gerðar
hafa verið, sýna, þ.e. að börn sem búa við skort
á umhyggju á fyrstu árum ævi sinnar eiga
erfiðara með að tengjast umhverfi sínu og læra í
því og af því en þau sem búa við góða umönnun
og njóta umhyggju (Shore, 1997). Umhyggja
er talin vera einn af þeim grundvallarþáttum
sem hafa áhrif á félagslegan, tilfinningalegan
og vitrænan þroska barna (Manning-Morton
og Thorp, 2003; Goldstein, 2002; Johannsson,
2001). Í ljósi þess ætti að gera umhyggju hátt
undir höfði í leikskólastarfi.
Samantekt
Það kemur ekki á óvart að leikskólakennar-
arnir sem rætt var við gera svipaðan greinarmun
á hugtökunum umhyggja og umönnun og
leikskólakennararnir Elva Önundardóttir o.fl.
(2006), þ.e. að umhyggja sé gildi en umönnun
framkvæmd. Umhyggja er viðhorf að mati
leikskólakennaranna, það sé því viðhorfið og
hugsunin að baki gjörðinni sem skiptir máli.
Niðurstaðan er að ekki sé hægt að sinna
starfinu í leikskólanum á faglega fullnægjandi
hátt nema bera umhyggju fyrir hagsmunum
barnanna; til þess þarf kennarinn að vera fær
um að tengjast börnunum og reyna að setja sig
í spor þeirra.
Margt af því sem kom fram í viðtölunum og
rýnihópunum fellur saman við skilgreiningar
Noddings (2003, 2005) og Sroufe (1995) á
umhyggju, þ.e. að umhyggja byggist á tengslum
milli tveggja (þess sem veitir og þess sem
þiggur), þar sem sinnt er bæði líkamlegum
og andlegum þörfum af alúð og virðingu fyrir
einstaklingnum.
Að mati leikskólakennaranna felst umhyggja
í því að setja börnum mörk í þeim tilgangi að
veita þeim öryggi, hins vegar þurfi ramminn að
Sigríður Síta Pétursdóttir