Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 151
149
Rýnt í skýrsluna
Staða lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum
Guðmundur B. Kristmundsson
Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
Menntamálaráðuneytið hefur sent frá sér
skýrsluna Staða lestrarkennslu í íslenskum
grunnskólum sem unnin var af Auði Magndísi
Leiknisdóttur, Hrefnu Guðmundsdóttur,
Ágústu Eddu Björnsdóttur, Heiði Hrund
Jónsdóttur og Friðriki H. Jónssyni (2009).
Skýrslan er hvatning til umhugsunar um stöðu
lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum og
bendir á leiðir til að bæta þar úr. Hér verður
vikið að nokkrum atriðum sem vöktu athygli
við lestur skýrslunnar. Þau tengjast einkum
hugtökum sem þar eru notuð og umfjöllun um
þau, niðurstöðum og hugsanlegum aðgerðum
til að bæta úr þar sem á skortir.
Um rannsóknina
Rannsókninni er lýst í upphafi skýrslunnar, en
hún byggist á úrtaki skóla á höfuðborgarsvæðinu
og landsbyggðinni. Þetta úrtak gefur vissulega
vísbendingar um stöðu lestrarkennslu en þess
þarf að gæta að hver skóli hefur sinn stíl
og þar geta einstakir kennarar ráðið miklu,
eins og reyndar kemur fram í skýrslunni.
Þeirri aðferð er beitt að ræða við kennara,
skólastjóra, nemendur og sérfræðinga. Það er
fullgild rannsóknaraðferð og gefur oft góða
raun. Það er þó svo að þegar kennarar eru
spurðir hvort þeir til að mynda fáist við lestur
eða hugi að læsi nemenda er ekki víst að svarið
sé í samræmi við það sem þeir í raun og veru
gera. Það leiðir hugann að nauðsyn þess að
rannsaka mun betur en gert hefur verið það
sem gerist í skólastofum á Íslandi. Reyndar er
vaxandi áhugi á þessu efni meðal þeirra sem
stunda menntarannsóknir.
Rannsókn á lestrarkennslu er viðamikið verk
og rannsókn á læsi enn stærra viðfangsefni.
Það vakti nokkra athygli að talsverð umfjöllun
er í skýrslunni um einstaklingsmiðað nám. Það
væri efni í aðra skýrslu þó vissulega komi það
við sögu í lestrarkennslu, svo sem í allri annarri
kennslu.
Notkun hugtaka
Það hefði verið til bóta ef sérfræðingar í
lestri, lestrarkennslu og læsi hefðu lesið texta
skýrslunnar. Ýmist er talað um læsi eða lestur.
Þetta er ekki sami hlutur. Lestur (e. reading)
er málrænt ferli þar sem samskipti þróast milli
texta og lesanda. Hugtakið lestur hefur verið
skilgreint með ýmsu móti. Einna algengust
er sú skilgreining að lestur sé virkt ferli þar
sem lesandi leitast við að greina merkingu
texta með því að nota málið, þekkingu sína og
reynslu. Lestur er því vitrænt ferli sem felur
í sér að umskrá tákn og tengja þau því máli
sem lesandi hefur aflað sér. Það tengist síðan
þekkingu hans og reynslu sem hjálpar honum
að greina merkingu textans.
Læsi (e. literacy) er aftur á móti sú færni
sem áunnist hefur og vart er hægt að segja að
kenna megi læsi. Frekar ætti að tala um að
efla það, t.d. með formlegri eða óformlegri
lestrarkennslu eða hvatningu til lestrar. Í
skýrslunni er gefin skilgreining PISA á læsi.
Í PISA-rannsókninni árið 2000, þar sem lestur
var í öndvegi, var eftirfarandi skilgreining
notuð:
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009, 149–153
Rannsóknarrýni