Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 34
34
þannig í sér ímynd hins menningarlega og þróaða. Í þeirri orðræðu var
„Evrópa“ ekki beinlínis raunverulegur staður heldur fremur það sem hann
kallar „ofurraunverulegur“; ekki landfræðilegt svæði heldur hugmyndaleg
miðja heimsmenningarinnar þar sem andleg og efnisleg menning hafði
samkvæmt skilgreiningu náð hæstum hæðum.8 Þegar íslenskir mennta-
menn fóru á fyrstu árum fullveldisins að huga að samanburði íslenskrar
og evrópskrar menningar fyrir aðrar greinar menningarlífsins en (forn)-
bókmenntirnar var eins og ofurraunveruleg fyrirmyndin bæri Íslendinga
ofurliði.9
Í ræðu sem Bjarni Jónsson frá Vogi, einn virkasti talsmaður lista- og
menningarlífs á Íslandi í upphafi tuttugustu aldar, hélt árið 1908 um högg-
myndalist Einars Jónssonar horfði hann til myndlistarsögu þjóðar sinnar.
Vonbrigðin leyndu sér ekki í orðum hans: „Mindaskáld höfum vér engin
átt. Sigurður málari hefir ekki látið neitt eftir sig, en gáfuna hafði hann.“10
Í samanburði við glæst myndverk sem evrópskar nágrannaþjóðir gátu stát-
að sig af var eyða í íslenskri menningarsögu. Nafn hins víðfræga Bertels
Thorvaldsens dugði Bjarna skammt þó svo að hann nefndi hann í erindi
sínu ásamt Stefáni Eiríkssyni útskurðarmeistara. Þótt Thorvaldsen hafi átt
íslenskan föður, sagði Bjarni, „getum vér eigi talið oss hann að öllu, firir
því að önnur þjóð ól hann upp og hann tók sér engin irkisefni úr íslensku
hugmindalífi“.11
Á ýmsum öðrum sviðum íslenskrar menningararfleifðar virtist ekki
heldur um auðugan garð að gresja. Löngu síðar í umfjöllun um stöðu
tónlistar á fyrri tíð á Íslandi komst tónlistarfræðingurinn Hallgrímur
Helgason að þeirri niðurstöðu að um aldamótin 1900 hafi Íslendingar
staðið „í tónmenningarlegu tilliti ... á barnslegu stigi náttúruþjóðar“.12 Í
samanburði við hina ríkulegu evrópsku tónlistarhefð þótti íslensk tónlist
fyrri tíðar ýmist frumstæð eða ófullkomin eftirlíking evrópsku frummynd-
arinnar.
8 Dipesh Chakrabarty, Provincializing Europe, London: Routledge, 2001, bls. 27–
28.
9 Sjá nánar Ólafur Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910–1930, Reykja-
vík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2011, bls. 134–139.
10 Bjarni Jónsson frá Vogi, „Einar Jónsson frá Galtafelli“, Ekki veldur sá er varar,
Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1908, bls. 68–78, hér bls. 71.
11 Sama rit, bls. 71.
12 Hallgrímur Helgason, Íslands lag. Þættir íslenskra tónmenntafrömuða, Reykjavík:
Leiftur, 1973, bls. 43.
ÓlAfuR RAStRick