Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 77
77
byggingarlist og deilur um kjör listamanna. En þrátt fyrir allt þetta ríkir
bjartsýni sem endurspeglast vitanlega í stofnun tímaritanna – og raunar í
nöfnum þeirra, Vaka ekki síður en Birtings. Kannski er þetta bjartsýni sem
fylgir tilfinningu fyrir nýjum tímum, jafnvel þótt þeir séu viðsjárverðir.
Kannski er þetta sama bjartsýnin og greina má í Uppstigningu Sigurðar
Nordals og braust út í vissri léttúð gagnvart ríkjandi viðmiðum.
Það ber þó að hafa í huga að menningarlandslagið var engan veginn
einsleitt á miðri tuttugustu öld, ekki frekar en á þriðja áratugnum – eða
öðrum tímabilum sögunnar. Þótt alltaf megi finna einhverja ráðandi til-
hneigingu eða meginhugmynd um menninguna þá er á sama tíma að
finna í henni leifar eldri viðhorfa og nýja krafta. Spurningin er, eins og
Raymond Williams (1921–1988) benti á, hvernig brugðist er við hverju
sinni; með afturhaldssömum hætti, þar sem áhersla er lögð á að rækta eða
varðveita það sem hefðin hefur skilað í gegnum síur aldanna til samtímans,
eða róttækum, þar sem áhersla er lögð á það nýja sem bíður eftir því að
spretta fram og breiða úr sér.79 Með orðum Sigurðar Nordals, sem kall-
ast skemmtilega á við þessa hugmynd, er þetta spurningin um það hvort
áherslan sé á upprisu (hins gamla) eða uppreisn (hins nýja).
Vaka kom til sögunnar þegar tíminn kallaði á upprisu, viðnám gegn
hinu nýja og varðveislu þess sem hefðin hafði skilað. Þrátt fyrir andóf gegn
íhaldssömum viðhorfum til framsækinna bókmennta og lista, sem Benedikt
Hjartarson segir frá í fyrrnefndri grein sinni um upphaf framúrstefnu á
Íslandi, þá urðu þau ofan á. Það þarf ekki að koma á óvart að áhersla á
þjóðleg gildi kalli á fagurfræðilega afturhaldssemi. Einnig verður að hafa í
huga samfélagslegar og efnahagslegar aðstæður hérlendis á þriðja áratugn-
um. Borgarsamfélag var á frumstigi og mikill meirihluti landsmanna bjó
enn í sveitum og bæjum. Íbúatala Reykjavíkur náði 25.000 árið 1928 en
landsmenn voru 103.000 í byrjun þess árs. Efnahagslegar aðstæður voru
í ofanálag ekki hliðhollar tilraunum í bókmenntum og listum.80 Halldór
79 Hér er vísað til hugtaka Williams um ríkjandi strauma (e. dominant), eftirstöðvar
(e. residual) og upprennandi strauma (e. emergent) sem hann skýrir meðal annars í
bók sinni Marxism and Literature, Oxford og New York: Oxford University Press,
1977, bls. 121–127.
80 Árni Sigurjónsson birtir forvitnilegar tölur um bókaútgáfu á þriðja áratugnum
í Íslenskri bókmenntasögu. Þær sýna að útgáfa var talsverð og meiri en áratugina
á undan, sérstaklega á sagnaskáldskap, frumsömdum sem þýddum. Frá 1919 til
1929 komu út 80 sagnabækur, þar af þrjár sem Árni segir mega telja nýstárlegar í
formi (Fornar ástir, Bréf til Láru og Vefarinn mikli). Útgáfa afþreyingarbókmennta
jókst og rúmlega 120 þýddar sagnabækur komu út á tímabilinu, helmingur þeirra
VAKA OG VAKI , UPPRISA OG UPPREISN