Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 59
59
sinnar hérlendis smíðuðu voru að stórum hluta hinir sömu meðal sams
konar hreyfinga víðs vegar um Evrópu, einkum hjá smærri þjóðunum.
Hugmyndin um þjóðina sem lífræna heild með sérstaka sköpunarsögu og
uppruna í þjóðernislegu blómaskeiði skýtur þannig upp kollinum víða um
álfuna. Sömuleiðis er áhugavert að í þjóðernisgoðsögnum þessara þjóða
um miðaldasamfélög gullaldarinnar er því iðulega haldið fram að þá hafi
blómstrað nokkur megingildi upplýsingarinnar og nútíma einstaklings-
hyggju, svo sem hugsjónir um frelsi, jafnrétti og meira að segja lýðræði.
Líkt og Sigríður bendir á var þessi hugmyndafræði forsenda hinna lýðræð-
islegu þjóðríkja nútímans. Hana er að finna í skrifum Sigurðar, eins og
annarra íslenskra þjóðernissinna á fyrri hluta 20. aldar, en afstaða hans er
flóknari og mótsagnakenndari en flestra annarra.29 Það endurspeglast ekki
síst í bókmenntaskrifum hans, eins og umfjöllunin hér að framan sýnir,
jafnvel grundvallarhugtak hans – fengið úr upplýsingunni – um hinn sterka
einstakling sem skapar snilldarleg listaverk er ekki laust við þversagnir, að
minnsta kosti ekki ef skáldskapur Nordals er dreginn inn í myndina.
Á milli lífs og listar
Árni Sigurjónsson segir í Íslenskri bókmenntasögu að ljóðsagan „Hel“ í
Fornum ástum, sem kom út árið 1919, skipi Sigurði „í röð framúrstefnu-
skálda á árunum milli stríða“.30 Hann segir að textinn rambi á „mörk-
um nýrómantíkur og framúrstefnu“, að í honum sé „módernísk hugs-
un og módernískt form“ og kosmískt myndmál hans minni á fútúrisma
Majakovskís. Sömuleiðis eigi textinn hið útblásna sjálf söguhetjunnar sam-
eiginlegt með Bréfi til Láru (1924) eftir Þórberg Þórðarson (1888–1974)
og Vefaranum mikla frá Kasmír (1927) eftir Halldór Laxness (1902–1998).31
Þó að nokkurt nýnæmi hafi vissulega verið í Fornum ástum – og þá sérstak-
lega í torræðu táknmáli „Heljar“ – er hæpið að kenna ljóðið/ljóðsöguna við
framúrstefnu eða módernisma. Árni getur þess raunar undir lok umfjöll-
unar sinnar að það mætti ekki síður kenna verkið við táknsæi eða symból-
isma í ætt við Charles Baudelaire (1821–1867) og Sigbjørn Obstfelder
(1866–1900).32 Og Jón Yngvi Jóhannsson dregur sömuleiðis úr nýstárleika
29 Auk áðurnefndrar umfjöllunar Sigríðar sjá grein hennar, „Íslenzk menning og evr-
ópsk þjóðernisstefna“, Tímarit Máls og menningar 1/2000, bls. 10–16.
30 Árni Sigurjónsson, „Sigurður Nordal – við straumhvörfin“, Íslensk bókmenntasaga,
IV. b., Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 69–77, hér bls. 69.
31 Sama heimild, bls. 71–77.
32 Sama heimild, bls. 77.
VAKA OG VAKI , UPPRISA OG UPPREISN