Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 111
111
þegar við finnum til með páfugli sem hefur tapað stélfjöðrum sínum.62 Við
getum verið þeirrar skoðunar að náttúruval skýri ágætlega tilvist stélfjaðra
umfram hönnunarkenningar, við vitum að tilvist þeirra er ekki háð ætlun
páfugla í neinum skilningi, en að sama skapi vitum við að tilgangur þeirra
er að gegna ákveðnu hlutverki og að ef þessi tilgangur er ekki uppfylltur þá
líður viðkomandi skepna verufræðilegan skort. Hún hefur ekki þá frum-
spekilegu heild til að bera sem gott, t.d. fullþroska, eintak af páfugli væri
dæmi um.
Spinoza renndi í grun hvers vegna þessu væri þannig farið og taldi
að menn fyndu upp tilgangsmiðaða hegðun í veröldinni af sjálfsdáðum;
markmið ættu sér í raun áhrifsorsakir sem væru langanir okkar og þarf-
ir.63 Markhyggja væri leið okkar til þess að ná utan um heiminn og segði
því minna um eðli hans en okkar. Margir hafa komist að svipuðum nið-
urstöðum, þrátt fyrir að leiðirnar að þeim hafi verið æði fjölbreyttar.64 Þær
niðurstöður styrkja fremur þá tilgátu að það sé skynseminni náttúruleg
hneigð að sjá náttúruna og lýsa henni í skynsamlegu ljósi. Orsakarhugtakið
er dæmi um hugtak sem okkur gengur illa að skilja sem hlutlausa lýsingu
62 Í Faídoni (98–99) færir Sókrates ágæt rök fyrir því hvers vegna það er „fráleitt
að kalla annað eins og [...] hvað sé hverju einstöku fyrir bestu og hvað sé gott
yfirleitt“ annað en orsakir (í Síðustu dagar Sókratesar, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1996, bls. 171). Í raun má segja að hann sé að orða anda sígildrar
markhyggju.
63 Gagnrýni Spinoza var í raun og veru beittasta gagnrýnin sem sett var fram á sautj-
ándu öld, sjá viðbótarkafla I. hluta, „Um Guð“, og innganginn að IV. hluta, „Um
ófrelsi mannsins, eða styrk geðshræringanna“. En Spinoza þurfti ekki samkvæmt
frumspeki sinni að gera ráð fyrir einstökum verundum, sem aftur var helsta hvötin
á bak við markhyggju Aristótelesar. Og helsta ástæðan á bak við gagnrýni hans, að
ef Guð hafi markmið í huga vanti eitthvað upp á sköpun hans og að það standist
ekki hjá alfullkominni veru, skiptir þá sem vilja ekki kasta markhyggju fyrir borð í
samtímanum litlu máli.
64 Þýski heimspekingurinn Arthur Schopenhauer er einn þeirra heimspekinga sem
í gagnrýni sinni á markhyggju (sérstaklega þó þann hluta hennar sem guðfræði-
legar vangaveltur hafa sótt hvað mest til, þ.e. að heimurinn sé verk skynsemi og
sérstaks markmiðs) kemst þó ekki hjá því að viðurkenna hana að því leyti sem hún
er niðurstaða þess að náttúran hefur getið af sér skynsemina. Við skiljum viljann,
frekar en að við viljum það sem við skiljum, sjá Über den Willen in der Natur (1836).
Niðurstaða hans er að útskýringar á hverju sem er í heiminum, ekki einungis org-
anískum verundum, séu óhjákvæmilega ófullkomnar nema þær feli í sér tilvísanir
um lögmál hreyfingar og skipulags. Í heimspeki Schopenhauers er þetta lögmál
viljinn.
SKYNSEMIN Í NÁTTÚRUNNI – NÁTTÚRULEG SKYNSEMI