Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 58
58
streitu – til glöggvunar á hugmyndum Nordals – þá hafnar Eliot algerlega
þeirri þjóðernispólitísku hugmynd, sem Nordal tekur upp, að hefðinni
tilheyri gullaldartímabil sem skáld geti tekið sér til fyrirmyndar. Hann
hafnar því sömuleiðis að listin geti tekið framförum þótt ljóst sé að hún
breytist. Og þegar Eliot talar um að „sérhver þjóð, sérhver kynþáttur“ hafi
bæði sérstaka sköpunargáfu til að bera og gagnrýna afstöðu, þá notar hann
ekki þessi hugtök, þjóð og kynþátt, í þjóðernispólitískum skilningi heldur
þeirri fagurfræðilegu merkingu að hefðarvitund þjóðarinnar og reyndar
Evrópu sé mikilvægari en einstaklingsins.26 Eliot hafnar þar að auki hinni
ævisögulegu rannsóknaraðferð.27 Aftur á móti eiga þeir Nordal og Eliot
það sameiginlegt að hafa brotið af sér viðjar fagurfræðilegrar íhaldssemi í
eigin skáldskap, eins og komið verður að hér á eftir.
Sáttaviðleitni Sigurðar við hinar erlendu nýjungar í listum og bók-
menntum er ekki að finna með jafn afdráttarlausum hætti í öðrum skrifum
hans. Yfirleitt tekur hann eindregnari þjóðernislega afstöðu, til dæmis í
Íslenzkri menningu, og í þeim efnum átti hann samleið með bróðurparti
íslenskra menntamanna á millistríðsárunum.28 Sigríður Matthíasdóttir
segir að hina sterku þjóðernisstefnu Sigurðar verði að skoða í ljósi hug-
myndalegra og sögulegra aðstæðna hans. Þjóðernishyggja hafi verið orðin
rótgróið afl í Evrópu og hluti af sjálfsmynd menntaðra manna. Íslendingar
hafi verið fátæk þjóð á jaðri Evrópu þar sem nútíminn var rétt að hefja
innreið sína. Íslendingar hafi verið orðnir staðráðnir í að stofna á landinu
sérstakt íslenskt þjóðríki en þeir hafi aftur á móti verið óvenju seinir að
skapa sér öfluga þjóðernislega sjálfsmynd miðað við flestar aðrar evrópskar
þjóðir. Þetta hlutverk fellur ekki síst Sigurði Nordal í skaut. Sigríður sýnir
einnig fram á að efnisþættir sjálfsmyndarinnar sem þjóðernislegir íhalds-
inga og tilfinninga með skemmtilegri vísun til sögu Frakkans Marcels Proust, Í
leit að glötuðum tíma (A la recherche de temps perdu, 1913–1927), sem er sennilega
viðamesta könnun módernísks skáldskapar á fljótandi mörkum samtímahugtaksins.
Frægasta birtingarmynd kenningar Prousts um tímann í þessu verki er sagan um
það hvernig æska (og tilvera) sögumanns rennur saman í eina tilfinningu er hann
finnur lykt af magðalenuköku. Sigurður upplifir lykt af brenndu horni og sviðnu
ullarklæði með svipuðum hætti, eins og hann segir frá í grein sinni um viljann og
verkið (bls. 260).
26 T.S. Eliot, „Hefðin og hæfileiki einstaklingsins“, bls. 46 og 43.
27 Sama heimild, bls. 47.
28 Á þetta bendir Árni Sigurjónsson í grein sinni „Nokkur orð um hugmyndafræði
Sigurðar Nordal fyrir 1945“, Tímarit Máls og menningar 1/1984, bls. 49–63, hér
bls. 51. Sjá einnig umfjöllun Sigríðar Matthíasdóttur um Íslenzka menningu í Hinum
sanna Íslendingi, bls. 103–107.
ÞRöStuR HelGASoN