Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 123
123
lýst sem landslagi sem hægt er að ganga í.23 Í inngangsriti sínu um minnis-
fræði rifjar Anne Whitehead upp að frá því í fornöld hafi minnistækni verið
þjálfuð og stunduð með því að menn ímynduðu sér ákveðna byggingu eða
landslag.24 Minnisferlið á því til að fara úr skorðum þegar menn flytja
úr einu umhverfi í annað.25 Eins og ótal margir aðrir Íslendingar flytur
Páll á mölina og verður fyrir þeirri óhugnanlegu upplifun að vera bæði
sá sami og allt annar maður á öðrum stað. Hann er ófær um að lesa og
túlka hið nýja umhverfi sitt, hann talar ekki rétta tungumálið. Það lands-
lag sem hefur mótað Pál og minningar hans er gjörólíkt því sem hann býr
í. Steindór félagi Páls hefur orð á þessu: „Þú áttir að verða prestur í sveit
[…]. Þú hefðir farið vel við landslagið“ (SH 144). Páll er því bæði ruglaður
í ríminu og rúminu, sem ýtir undir afleiðingar minniskreppunnar: kvíða,
hryggð og útskúfun. Hernámið ýtir enn frekar undir þessa upplifun, enda
segir Páll eftir að Bretar hernema landið að hann sé „eins og maður sem á
hvergi heima“ (G 316). Sögumaður reynir að koma orðum að óhugnaðin-
um sem felst í þessari reynslu með því að vitna til þjóðsagna:
líkt og ég hafi verið á hraðferð um ókunnugt og síbreytilegt lands-
lag, en tungl vaðið í skýjum og lostið annað veifið kaldri geislasvipu
þesskonar trölladyngjur og draugastapa, álfaborgir og hulduhóla,
drekkingarhylji og gálgakletta […]. Þegar ég lít um öxl á síðkvöldum
og hugleiði þessi ár [styrjaldarinnar], reimleika þeirra og seiðskratta,
viðburði þeirra og umrót norður á hjara heims, þá verður mér auð-
vitað ljóst að andlegir færleikamenn, til að mynda rithöfundar og
sagnfræðingar, gætu sótt þangað stórbrotinn efnivið í langar bækur.
Aftur á móti mundi ég einungis sækja þangað slitróttar minningar
og daufar skyndimyndir. (SH 16)
Hér kemur greinilega í ljós munurinn á endurminningum og stórsögunni,
þar sem sögumaður reynir að lýsa persónulegri upplifun á umbrotatímum,
frekar en umbrotunum sjálfum. Endurminningar hans taka á sig mynd
landslags þar sem kynjaverur tákna þær tilfinningar sem tengjast viðkom-
andi tíma: óhugnað, beyg, uppflosnun.
23 Katharine Hodgkin og Susannah Radstone, „Introduction: Contested Pasts“, og
„Patterning the National Past: Introduction,“ Memory, History, Nation: Contested
Pasts, bls. 11, 169.
24 Anne Wainwright, Memory, London: Routledge, 2009, bls. 27–37.
25 Sjá Paul Connerton, How Modernity Forgets.
HRINGSÓL UM DULINN KJARNA