Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 45
45
náð af þjóð sem í verklegum efnum stóð á frumstigi. Fram til þessa
dags hefir sú regla gilt um allan heim að til þess að þroska og bera
uppi, þótt um skamma hríð væri, fágaðar og glæsilegar bókmenntir,
þarf eigi aðeins talsvert mikla almenna velmegun, heldur líka mikla
verklega menningu og fágun sem hlýtur að koma fram í ýmsum
öðrum formum listar.40
Af líkum mátti því ráða að Íslendingar fyrri tíðar hefðu ekki einung-
is verið skáld og bókagerðarmenn á heimsmælikvarða heldur hefðu þeir
líka verið myndlistarmenn, tónskáld og byggingarmeistarar þótt heldur
óhönduglega hafi tekist til með varðveislu þess arfs eins og raun bæri vitni.
Með frekari rannsóknum og endurheimt íslenskra muna frá útlöndum
taldi Þorkell að draga mætti upp skýra mynd af þeirri miklu arfleifð sem
Íslendingar ættu en hefðu lítt sinnt til þessa.41 Spurningin væri því ekki
hvort Íslendingar hefðu verið „alhliða“ menningarþjóð eins og evrópsku
bræðraþjóðirnar heldur sneri hún að því að skýra nákvæmlega og í smáat-
riðum frá samsetningu og eigindum hins merka íslenska arfs. Þannig þyrfti
að taka íslenska alþýðumenningu og listmenningu fyrri alda og rannsaka
hana mjög nákvæmlega, „flokka allt niður, skýra og meta, rekja vandlega
samband við þekktar stíltegundir frá sama tíma með öðrum þjóðum“, eins
og Þorkell komst að orði. Með þessu mátti fylla upp í menningarsögulegu
eyðurnar sem menntamennirnir höfðu borið kennsl á með samanburði
íslenskrar menningar við menningu hinnar „ofurraunverulegu Evrópu“.
Með þessu móti mátti ná fram því sem vantaði í íslenska menningu til
þess að hún gæti talist fullsköpuð og alhliða – ná fram því sem var hulið
en hlaut samt að vera þarna rétt eins og hjá þeim þjóðum sem Íslendingar
vildu bera sig saman við. Þetta myndi jafnframt vekja á ný menningar-
lega sjálfsvirðingu Íslendinga. Og með vitneskju um auðlegð íslenskrar
menningarsögu myndi jafnframt hinn „forni listaneisti“, eins og Þorkell
komst að orði, „sem hjarði í krotinu á aski fátæklingsins, í skrautletrinu á
nautshyrningum hans, glæð[a]st á ný“. Þá kæmi það í ljós „að hann hefir
ekki slokknað með öllu og týnzt í gljámyndum, postulínshundum og öðru
stássstofu skrani“.42
40 Þorkell Jóhannesson, „Íslenzk list“, bls. 297–298.
41 Sama rit, bls. 306.
42 Sama rit, bls. 308.
POSTULÍNSHUNDAR OG GLöTUÐ MEISTARAVERK