Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 133
133
„játninga“ og „skrifta“ (SH 7; DS 8). Í byrjun þriðja bindis, Dreka og smá-
fugla, talar hann ekki einungis um glöggvun heldur líka um „kaþarsis“,
„sem mér finnst einhvern veginn, að ég þarfnist“ (8). Páli finnst hann hafa
þörf fyrir hreinsun sem hann vonast til að fá með því að játa, skrifa endur-
minningar sínar og láta ekki undan þeirri freistingu að sleppa því sem
hann vill síður rifja upp:
Hver gæti bannað þér að hlaupa yfir sumt, láta eins og ekkert hefði
gerzt? spyr rödd í hugskoti mínu. En ég þagga niður í slíkri úrtölu-
rödd, vil ekki hlusta á hana, því að öll þessi upprifjun mín kæmi fyrir
lítið, ef ég færi að ráðum hennar, hlypi yfir sumt, léti eins og sumt
hefði ekki gerzt. (DS 117)
Þótt lesandanum kunni að sýnast gjörðir Páls varla verðskulda svo alvarleg-
ar vangaveltur þá er greinilegt að í huga Páls er ástæðan fyrir því að hann
er að þessu „pári“ ekki aðeins glöggvun heldur hreinsun. Hann þráir að
friða samviskuna, losa sig við sektarkennd. Hann lítur með öðrum orðum
ekki aðeins á skrif sín sem endurminningar til fróðleiks heldur játningar
sem miða að kaþarsis.
Játningaformið er ævisaga um synd og afbrot þar sem minnið er virkjað
til að frelsa nútímann undan fortíðinni og til að sigra glímuna við tímann.
Játningar segja frá ferli þar sem gölluð fortíð er gerð að sameiningarafli í
nútímanum.40 Það sem liggur þeim til grundvallar er tilfinningaleg spenna,
þrá eftir lækningu. Þegar Pálssaga er skoðuð sem minnistexti vekur athygli
að játningar eru jafnan knúnar áfram af löngun til að endurskrifa sögu
skriftabarnsins: þær eru ekki skrifaðar til að muna heldur til að gleyma, til
að stroka út fortíðina. Í trúfræðilegu samhengi þjónar játning því mark-
miði að fá lausn undan sekt og byrja aftur sem ný manneskja. Játningar
miða með öðrum orðum að eyðingu sjálfsins sem er bæði höfundur og efni
verksins. En þegar játningar eru skrifaðar sem bókmenntatexti, skrifaðar
til útgáfu og til að ganga milli lesenda, er eyðingunni umturnað og text-
inn verður írónískur. Hann býður okkur upp á endurminningar sem miða
að gleymsku og eyðingu sjálfsins á bak við textann, en í varanlegu formi
bókar. Hvaða sekt þráir Páll að sefa? Og tekst honum að leysa úr mótsögn
játningatextans?
40 Richard Terdiman, Present Past, bls. 78.
HRINGSÓL UM DULINN KJARNA