Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 99
99
manna sem lætur tilgangsorsakir í allri náttúrunni falla fullkomlega að
nýjustu uppgötvunum náttúruvísindanna.23 Hugmyndasagnfræðingar sem
þráast við að viðurkenna þann virðingarsess sem markhyggja skipaði þrátt
fyrir allt á sautjándu öld gætu nefnt tvær ástæður fyrir því hvers vegna við
þurfum ekki að gera of mikið úr þessum þætti í verkum þessara vísinda-
manna. Annars vegar gætu þeir haldið því fram að sú endurskilgreining
sem tilgangsorsakir gengu í gegnum í hugsun vísindamannanna geri það að
verkum að rangt sé að tala um markhyggju í þessu sambandi. Hins vegar
gætu þeir einfaldlega gert lítið úr vísindalegu gildi ofangreindra hugmynda
og sagt þær eiga fremur heima innan guðfræði en vísindasögu. Til þess að
athuga hversu réttmætar slíkar athugasemdir eru í raun og veru þarf að
athuga nánar hvers eðlis markhyggja er og hvaða spurningum hún svarar.
Markhyggja byggir á rannsókn á tilgangi fyrirbæra. Þessi tilgangur
getur brugðið sér í margs konar búning og við tölum oft jöfnum höndum
um markmið eða hlutverk fyrirbæra frekar en tilgang þeirra. Rannsóknin
á sér auðvitað tæknilegra hugtakasafn og er hin aristótelíska tilgangsorsök
(lat. causa finalis) grundvallarhugtak hennar. Hugtakið getur verið villandi
við fyrstu kynni. Tilgangsorsök er ekki orsök sem kemur á eftir hlut eða
atviki. Tímaramminn er ekki það sem skiptir höfuðmáli, framtíðin orsakar
ekki nútíðina. Tilgangsorsök er útskýring, hún er „vegna þess“-hluti setn-
ingar sem á að svara „hvers vegna spurningu“.24 Á íslensku má því sem best
nefna hana tilgangsskýringu, en þá verður að hafa í huga að þau náttúrulegu
ferli sem passa við skýringuna eru raunveruleg. Skortur á frumspekilegum
áhuga hefur gert það að verkum að rökgreiningarheimspeki hefur sára-
lítið sinnt markhyggju þrátt fyrir að efniviðurinn kalli á nákvæma grein-
23 Frægustu verkin eru án vafa bækur Williams Derham Physico-Theology og Astro-
Theology frá 1714 og 1715. Margar fleiri mætti nefna. Raunar má segja að um
nokkuð stanslausa útgáfu á Bretlandseyjum (og raunar í flestum Evrópulöndum)
hafi verið að ræða fram til hins þekkta verks Williams Paley Natural Theology frá
árinu 1802. Það verk er oft nefnt sem einhvers konar dauðateygjur hugmyndafræði
sem komin var að fótum fram.
24 Aristóteles, Eðlisfræðin, Bók II, kafli 8. Sjá einnig ítarlega grein Allans Gotthelf,
„Aristotle’s Conception of Final Causality“, The Review of Metaphysics 2/1976, bls.
226–254. Nýlegt rit sem útskýrir og ver afstöðu Aristótelesar á ákaflega sannfær-
andi hátt er bók Montes Johnson, Aristotle on Teleology, Oxford: Clarendon Press,
2005. Verkið er meðal annars öflug greining á margs konar leiðum til þess að túlka
tilgangsorsakir í heimspeki Aristótelesar, til þess að setja markhyggju og heimsfræði
í sem víðast samhengi.
SKYNSEMIN Í NÁTTÚRUNNI – NÁTTÚRULEG SKYNSEMI