Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 23
SKÍRNIR
ATHUGASEMDIR UM EYRBYGGJU
21
dirfð. Gott dæmi þessa er að finna í bardaganum í Álftafirði (44.
kap.), þegar Snorri selur Steinþóri grið,
ok er þat sumra manna spgn, at Snorri goði sæi þá Bjorn, er þeir váru uppi í
hálsbrúnínni, er hann horfði í gegn þeim, ok væri því svá auðveldr í griðasol-
unni við þá Steinþór.
í hita bardagans hefur Snorri jafnan eftirmálin í huga. Hann vill
aldrei láta ganga svo langt í manndrápum að sættir verði óhugsandi
og langan ófrið leiði af.
Þegar svo djúp ráð standa að baki hverjum verknaði, eins og nú
hefur verið sýnt, hvort sem um er að ræða að koma af stað deilum
eða setja þær niður, hlýtur að vakna spurning um drengskapinn.
Snorra er hvergi getið að „óþörfum“ drengskap, það er þess háttar
drengskap sem ekki á sér rætur í eigingjörnum hvötum, nema e. t. v.
löngun til að geta sér drengskaparorð. Odrengskap verður naumast
sagt að hann sýni heldur. Víst voru til þeir höfðingjar á Sturlunga-
öld sem ekki hefðu vílað fyrir sér að rjúfa grið á Birni Breiðvík-
ingakappa og láta drepa hann eftir að þeir sjálfir hefðu verið
sloppnir úr lífshættu. Hvergi er Snorri bendlaður við slík níðings-
verk. Sumar gerðir hans eru vitanlega hæpnar frá drengskaparsjón-
armiði, eins og t. d. þáttur hans í drápi berserkjanna eða fiugu-
mannssendingum til Arnkels og Björns Breiðvíkingakappa. Rétt er
að veita því eftirtekt að alls staðar er vitnað í almannaróm um þátt
Snorra í þessum verkum. Snorri er vitrari en svo að hann láti nokkra
örugga vitneskju berast út um þátt sinn í þeim. Hér er þó á það að
líta að sænskir berserkir hafa tæpast verið taldir til manna sam-
kvæmt fornri siðaskoðun og útrýming þeirra landhreinsun, og flugu-
ferðir voru algengt vopn í átökum höfðingja í sögum, og virðast
ekki hafa valdið þeim er að baki stóðu verulegum álitshnekki.
Eins og fyrr segir, eru það vit og viljastyrkur sem hefja Snorra
yfir alla andstæðinga hans. Snorri veit hvað hann vill og hvernig
hann á að koma vilja sínum fram; hann flýtir sér ekki að slá, en
þegar tíminn er kominn hikar hann ekki og höggið fellur örugglega.
Lýsingin á þessum eiginleikum hans er þeim mun áhrifameiri sem
andstæðingar hans eru betri menn.
Hér hefur nú verið reynt að benda á meginþættina í skapgerð
Snorra goða og hvaða aðferðum er beitt til að leiða þá í Ijós. Hins