Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 176
174
RITDÓMAR
SKÍRNIR
og síðar, og þykist hafa fullvissað sig um það, að skáldskapur Hjálmars hafi
öðru fremur mótazt af íslenzkri ljóðhefð 16.-19. aldar, andlegri og verald-
legri, en miklu síður af fombókmenntunum. Ef gera eigi einhverja grein fyrir
verkum hans, verði það því að vera í ljósi þessarar hefðar og bókmenntalegra
aðstæðna Hjálmars í lifanda lífi, en án þess geti aldrei orðið um annað en
hálfkák að ræða.
Þó má að vísu segja, að viðhorf höf. til efnis síns leiði hann að nokkru
fram hjá þessum vanda. Að byggingu er ritgerðin ævisöguleg (bíógrafísk),
þ. e. byggð upp sem ævisaga Hjálmars, en fléttað inn í köflum um verk hans
á tilteknum skeiðum og annað efni, og atriði eins og fyrirmyndir hans og staða
hans í íslenzkum bókmenntum 19. aldar að mestu látin lönd og leið. Þar er
þó við annan vanda að glíma, sem em heimildirnar. Að vísu eru til a. m. k.
fjögur sjálfstæð prentuð rit um ævi Iljálmars, auk annarra sem á þeim byggja,
en eigi að síður fer því fjarri, að allar heimildir um þetta efni séu kannaðar
og nýttar til hlítar. Hið brýnasta í sambandi við rannsókn á ævi Hjálmars væri
því að kanna frumheimildir um hana, sem að mestu er að finna í Þjóðskjala-
safni og handritadeild Landsbókasafns, og vinna úr þeim, en af ritgerðinni
verður naumast ráðið, að höf. hafi nokkru sinni stigið fæti sínum inn fyrir
dyr þessara göfugu stofnana. Þess í stað sækir hann ævisöguefni sitt til rit-
gerða þeirra Hannesar Hafstein (framan við Kvæði og kviðlinga Hjálmars,
Rvk. 1888), Jóns Þorkelssonar (framan við Ljóðmæli Hjálmars, Rvk.1915-19)
og Finns Sigmundssonar (í Ritsafni Hjálmars, Rvk. 1949-60), en bætir litlum
sem engum nýjum fróðleik við þann sem þar er að finna. Auk þess notfærir
hann sér Bólu-Hjálmarssögu (Eyrarbakka 1911), sem Símon Dalaskáld safn-
aði efni til, en Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi færði í letur og jók við.
Sú bók er að vísu efnismikil, en fádæma ónákvæm, svo að við notkun hennar
verður jafnan að beita ströngustu heimildarýni. A það þykir mér bresta hjá
höf., enda verður honum fótaskortur í því efni, t. d. er hann nefnir tengdaföð-
ur Hjálmars Ólaf Kráksson (bls. 446) eftir Bólu-Hjálmarssögu, en að réttu
lagi var hann Jónsson. Af þessum vinnubrögðum höf. leiðir það, að ævisögu-
efni ritgerðarinnar eykur ekki nýrri vitneskju við það sem vitað er um efnið
af eldri ritum, og umfjöllun hans er sjaldnast þess eðlis, að honum takist að
draga markverðar ályktanir af heimildum sínum, nema ef vera skyldi um
örfá minni háttar atriði.
Svo vikið sé að efnisskipan ritgerðarinnar, þá hefst hún á inngangskafla,
þar sem gerð er almenn grein fyrir aðstæðum á íslandi á 19. öld og rætt um
viðhorf til og efnivið ævisögunnar. Annar kafli nefnist Die Anfánge (Upphaf-
ið), og er þar greint frá fæðingu Hjálmars, æskuánun og fyrstu vísum. Eyðir
höf. þar löngu máli í vangaveltur um það, hvort Hjálmar hafi raunverulega
ort þessar vísur eins ungur og hann vill vera láta - efni sem vissulega kann
að vera vert athugunar, en naumast svo rækilegrar sem hér er - en út yfir
tekur þó, er hann eyðir síðan 46 blaðsíðum í níðkveðskap Hjálmars um séra
Jón Reykjalín og rekur í því sambandi íslenzkan níð- og ákvæðaskáldskap
allt frá Agli SkaUagrímssyni og Þorleifi jarlaskáldi frarn til núlifandi manna.
Hefði óneitanlega verið vænlegra til árangurs að leggja meiri vinnu í þriðja