Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 147
SKÍRNIR ÍSLENZKAR BÓKMENNTIR ERLENDIS 145
Ætla mætti að kvæði væru víðar þýdd en sögur - vegna þess
að þau eru styttri, þó ekki væri annað. En þrjár ástæður hafa að
líkindum hamlað víðtækari kynnum af íslenzkum ljóðmælum
erlendis. I fyrsta lagi er örðugra að þýða ljóð en laust mál, og
það verður í öðru lagi enn örðugra en ella þegar hefðbundinn
bragur og ljóðstafasetning íslenzkra kvæða er annars vegar. í
þriðja lagi eru margar þýðingar íslenzkra rita gerðar um þriðja
mál, en sú aðferð hentar betur við þýðingar á lausu máli en ljóðum.
Þýðingatal áranna 1860-69 annars vegar, 1960-69 hins vegar,
gefur til kynna að þýðingum íslenzkra rita á önnur mál hafi farið
sífjölgandi. Því er þó ekki þannig farið: þýðingum hefur fjölgað
mjög misört. Heimstyrj aldirnar báðar töfðu fyrir útbreiðslu allra
bókmennta, og þá einnig íslenzkra. Og eftir að íslenzkir höfundar
hættu að mestu að skrifa á dönsku eða norsku hefur íslenzkum
skáldsögum fækkað á erlendum markaði þótt ekki hafi dregið úr
útbreiðslu íslenzkra smásagna. 1930-39 kom út 141 útgáfa ís-
lenzkra skáldsagna í heilu lagi eða hluta þeirra erlendis, tíu þeirra
frumsamdar á dönsku en sex á norsku. 1960-69 voru íslenzkar
bókmenntir orðnar kunnari erlendis. En af 111 útgáfum skáldsagna
á þeim áratug var ein saga frumsamin á dönsku og önnur á norsku.
Á umliðnum áratug hef ég með aðstoð Kenneth Obers unnið að
því að taka saman skrá um þýðingar íslenzkra bókmennta seinni
alda, frá siðaskiptum, að meðtöldum frumsömdum verkum íslenzkra
höfunda á erlend mál. Við þetta starf höfum við notið fyrirgreiðslu
Ólafs Pálmasonar og Ólafs Hjartar í Landsbókasafni og Vilhjálms
Bjarnar í Fiske-safninu í íþöku auk margra annarra hjálpfúsra
aðilja, þar á meðal margra núlifandi rithöfunda sem hafa látið
upplýsingar í té. Eftir þessari skrá er unnt að taka saman marg-
víslegan tölulegan fróðleik um útbreiðslu íslenzkra bókmennta.
Þessum tölum ber þó að taka með nokkurri varúð. í tölfræði
af þessu tagi orkar flokkun ævinlega tvímælis, hvernig telja skuli
verk sem þýdd eru að hluta, endurskoðaðar útgáfur, endurprent-
anir og endurútgáfur. Ennfremur er engin ástæða til að ætla skrána
tæmandi. Engin efnisleit hefur verið gerð í dagblöðum, en það eitt
skráð sem rakst upp í hendurnar á höfundum, einkum þýðingar
í helztu Kaupmannahafnarblöðum sem eiga efnisskrám á að skipa.
10