Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 93
SKÍRNIR
ÞINGVALLAFUNDUR 1888
91
hann féllst á breytingar meirihlutamanna 1887, og þeir fylgdu meg-
instefnu hans, sem varð stefna Þingvallafundarins. Benedikt mátti
hrósa sigri á þeim fundi.
Reykjavíkurblöðin segja öll frá Þingvallafundinum og fylgja
stefnu hans í stjórnarskrármálinu. En svo líður árið 1888 að þau
ræða lítið stjórnarskrármálið og önnur mál fundarins nálega ekki.
Hannes Hafstein verður ekki fyrir aðkasti nema helzt í Þjóðólfi,
sem raunar hafði andað köldu til hans fyrir Þingvallafundinn. Fj all-
konan veitir Hannesi þá viðurkenningu, að hann hafi talað með
gætni og lipurð. í Þjóðviljanum er tónninn öllu harðari en í höfuð-
staðarblöðunum, og er Hannes að einu leyti hafður fyrir rangri sök.
Eins og fyrr segir gátu þeir Þingvallafundarmenn, sem heima áttu í
Reykjavík, leiðrétt eftir á handrit fundarritara af ræðum sínum.
Þjóðviljinn vænir Hannes um að hafa breytt ræðum sínum, strikað
út stóru orðin en aftur á móti skotið inn sumu, sem vansagt hafi
verið. En hann hefur alls engu breytt í handritum fundarritara af
ræðum þeim, er hann flutti. Ef að einhverju leyti er ekki rétt farið
með þær í Þingvallafundartíðindum, er það sök fundarritara. Þess
má geta, að Björn Jónsson og Jón Olafsson hafa talsvert leiðrétt
handritin af ræðum sínum.
Þingvallafundartíðindi eru prentuð í ísafoldarprentsmiðju, og
hefur Björn Jónsson séð um útgáfu þeirra. Þau gagnrýnir Þjóðvilj-
inn mjög og segir 25. sept. 1888, að þau hefðu betur verið óprent-
uð, þar sem þau mættu heita næsta ófullkomlega úr garði gerð og
gæfu óljósan og sumpart alveg rangan útdrátt úr ræðum sumra
fundarmanna. Einkanlega átelur blaðið það, að alls ekki er minnzt
á þriðju tillögu stjórnarskrárnefndar, sem fór í þá átt að beina
verzlunarviðskiptum landsins sem mest frá Danmörku, meðan
stj órnarskrárdeilan stæði yfir, og segir, að þegjandi sé gengið fram
hjá „öllum þeim umræðum, er út af henni spunnust“. Eins og fyrr
segir var tillaga þessi tekin aftur, og í skjölum fundarins finnast
engin merki umræðna út af henni. Sennilega hafa þær farið fram
svo sem utan dagskrár, og hefur fundarstj óri því ekki talið sér skylt
að láta skjalfesta þær. I grein með fyrirsögninni „Hreinskilnin er
affarabezt“, sem birtist í Þjóðviljanum 12. nóvember, er þetta kennt
of mikilli varúð og hræðslu meðal annars um það, að íslendingar